Körfubolti

KR-ingar sagðir vera að fá „Túrbó“ liðsstyrk frá Bandaríkjunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson í leik með Nebraska Cornhuskers í vetur.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson í leik með Nebraska Cornhuskers í vetur. Getty/Zach Bolinger

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson gæti klárað þetta tímabil með KR í Domino´s deildinni í körfubolta ef marka má nýjustu fréttir.

Karfan.is segist hafa öruggar heimildir fyrir því að Þórir spili með KR á lokakafla tímabilsins.

Þórir, sem hefur stundum verið kallaður „Tóti Túrbó“, hefur spilað með Nebraska Cornhuskers í fyrstu deild bandaríska háskólakörfuboltans undanfarin ár.

Þórir er nú 22 ára gamall en hann var hluti af þremur Íslandsmeistaraliðum KR-inga (2015, 2016 og 2017) áður en hann fór út í skóla. Á síðasta tímabili sínu með KR þá var Þórir með 10,2 stig og 3,5 fráköst að meðaltali á 22,1 mínútu í leik.

Þórir spilaði 92 leiki með Nebraska Cornhuskers á síðustu fjórum árum en átti sitt besta tímabil í fyrra. Þá var hann með 8,8 stig og 4,8 fráköst í leik og hitti úr 37 prósent þriggja stiga skota sinna.

Í vetur var hann með 3,9 stig og 3,1 fráköst að meðaltali í leik en hann hitti úr 29 prósent þriggja stiga skotanna og 77 prósent vítanna.

Þórir er hávaxinn bakvörður og spilar á vængnum. Hann býr nú af fjögurra ára reynslu af bandaríska háskólaboltanum og verður góður liðstyrkur fyrir KR-liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×