Körfubolti

Dagný Lísa með að minnsta kosti eitt af öllu en Kúrekastelpurnar eru úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Lísa Davíðsdóttir sést hér skora í leiknum í nótt.
Dagný Lísa Davíðsdóttir sést hér skora í leiknum í nótt. Twitter/@wyo_wbb

Það var bara einn dans hjá fulltrúa Íslands í Marsfárinu í bandaríska háskólakörfuboltanum í ár.

Dagný Lísa Davíðsdóttir og félagar hennar í Wyoming liðinu eru úr leik í úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans eftir tap í fyrstu umferðinni í nótt.

Wyoming Cowgirls áttu litla möguleika á móti sterku liði UCLA Bruins en stelpurnar frá Kaliforníu unnu leikinn á endanum með 21 stigi, 69-48, eftir að hafa unnið alla leikhlutana.

UCLA komst í 13-3 í upphafi leiks, vann fyrsta leikhlutann með tólf stigum, 23-11, og var með örugga forystu allan leikinn.

Dagný Lísa var með 5 stig á 34 mínútum og var með að minnsta kosti eitt af öllu því auk stiganna þá tók hún þrjá fráköst, gaf eina stoðsendingu, stal einum bolta og varði eitt skot.

Dagný skoraði körfur báðar körfur sínar í leiknum á rúmum tveggja mínútna kafla í öðrum leikhluta.

Dagný Lísa var með 9,0 stig og 5,4 fráköst að meðaltali í leik á lokaári sínu en hún var með flest varin skot og næstflest fráköst hjá Wyoming liðinu í vetur og byrjaði alla 24 leikina.

Þetta var síðasti leikur Dagnýjar Lísu í háskólaboltanum en hún mun nú væntanlega koma heim til Íslands eftir sjö ár úti í Bandaríkjunum í menntaskóla og háskóla.

Dagný Lísa fór í uppkastið í leiknum fyrir hönd síns liðs.Twitter/@wyo_wbb



Fleiri fréttir

Sjá meira


×