Körfubolti

James kom Lakers nær toppsætinu

Sindri Sverrisson skrifar
LeBron James kemur boltanum í körfuna hjá Charlotte Hornets.
LeBron James kemur boltanum í körfuna hjá Charlotte Hornets. AP/Marcio Jose Sanchez

Meistarar Los Angeles Lakers komu sér upp í 2. sæti vesturdeildar með 116-105 sigri á Charlotte Hornets í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Þetta var fjórði sigur Lakers í röð.

LeBron James skoraði 37 stig að þessu sinni, tók átta fráköst og gaf sex stoðsendingar. Dennis Schröder skoraði 22 stig og gaf sjö stoðsendingar.

Lakers eru núna með 28 sigra og 13 töp, rétt á eftir Utah Jazz sem tapaði í nótt og er með 29/11.

„Við höfum ekkert rætt um þetta,“ sagði James um möguleikann á vesturdeildarmeistaratitlinum. 

„Ef við fáum tækifæri til þess að taka hann, hví ekki? En við höfum ekkert verið að tala um hvar við lendum á þessu ári. Við höfum verið betri eftir hléið (vegna stjörnuleiksins) en það mikilvægasta fyrir félagið er að við spilum meistarakörfubolta á hverju kvöldi og höldum okkur heilum,“ sagði James.

Bradley Beal og Russell Westbrook leiddu Washington Wizards til 131-122 sigurs gegn Utah. Beal skoraði 43 stig og Westbrook 35 auk þess að taka 15 fráköst og gefa 13 stoðsendingar. Westbrook hefur þar með náð þrettán þreföldum tvennum á tímabilinu.

Washington er engu að síður í þriðja neðsta sæti austurdeildar með 15/25 en þarf að komast upp í 10. sæti, þar sem Indiana Pacers eru með 17/22, til að geta komist í úrslitakeppnina.

Úrslit næturinnar:

  • Washington 131-122 Utah
  • Atlanta 116-93 Oklahoma
  • New York 94-93 Orlando
  • Phoenix 119-123 Minnesota
  • Portland 101-93 New Orleans
  • LA Lakers 116-105 Charlotte
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×