Körfubolti

Lamaðist þegar bíl var ekið aftan á hann

Sindri Sverrisson skrifar
Shawn Bradley er í miklum metum hjá Dallas Mavericks en hann lagði skóna á hilluna fyrir 16 árum.
Shawn Bradley er í miklum metum hjá Dallas Mavericks en hann lagði skóna á hilluna fyrir 16 árum. Getty/Ronald Martinez

Shawn Bradley, fyrrverandi NBA-leikmaður Dallas Mavericks og einn af körfuboltamönnunum í kvikmyndinni Space Jam, er lamaður eftir að bifreið var ekið aftan á hann á reiðhjóli.

Frá þessu er greint í yfirlýsingu frá Dallas Mavericks, félaginu þar sem Bradley átti sín bestu ár í körfuboltanum en hann lék með liðinu árin 1997-2005 þegar hann lagði skóna á hilluna.

Slysið átti sér stað 20. janúar, í næstu götu við heimili Bradleys í St. George í Utah. Mæna hans skaddaðist svo illa að hann lamaðist. Síðan þá hefur Bradley verið á sjúkrahúsi og í endurhæfingu.

Í yfirlýsingunni segir að Bradley sé í góðum höndum hæfustu sérfræðinga og sinnar frábæru fjölskyldu, og að Carrie kona hans sé hjá honum öllum stundum. Bradley er sagður hress og vilja nýta slysið til að vekja athygli á því hve mikilvægt sé að gæta að öryggi hjólreiðafólks.

Bradley, sem er 2,30 metrar að hæð, kom inn í NBA-deildina árið 1993 þegar hann var valinn af Philadelphia 76ers. Hann spilaði tvær leiktíðir með New Jersey Nets áður en hann fór svo til Dallas.

Árið 1996 var hann Bradley einn af stjörnunum sem léku í hinni vinsælu kvikmynd Space Jame með Michael Jordan í broddi fylkingar. Auk þeirra voru Muggsy Bogues, Larry Johnson, Charles Barkley og Patrick Ewing á meðal leikara í myndinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×