Handbolti

Hall­dór Jóhann fer ekki með Bar­ein á Ólympíu­leikana

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Halldór Jóhann á hliðarlínunni í Egyptalandi í janúar.
Halldór Jóhann á hliðarlínunni í Egyptalandi í janúar. EPA-EFE/Mohamed Abd El Ghany / POOL

Halldór Jóhann Sigfússon verður ekki á hliðarlínunni er Barein tekur þátt á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar líkt og hann var er liðið tók þátt á HM í janúar. Hann var ekki tilbúinn að fórna starfi sínu á Selfossi.

Halldór Jóhann var í upphafi þessa árs landsliðsþjálfari Barein sem og Selfyssinga í Olís deild karla í handbolta. Hann hefur ákveðið að segja starfi sínu sem landsliðsþjálfari Barein lausu. Þetta staðfesti Halldór í spjalli við RÚV í dag.

Halldór Jóhann var upphaflega ráðinn í lok nóvember á síðasta ári og átti hann aðeins að stýra liðinu út HM í Egyptalandi. Átti að meta stöðuna að móti loknu. Það var hins vegar ljóst að Barein væri á leiðinni á Ólympíuleikana í fyrsta sinn en liðið vann Asíuforkeppnina um haustið 2019.

Þá var Aron Kristjánsson þjálfari liðsins. Aron ákvað hins vegar að hætta þegar ljóst var að Ólympíuleikarnir færu ekki fram sumarið 2020. Hann tók svo við liði Hauka í Olís deild karla síðasta sumar.

Barein fékk upphaflega Þjóðverjann Michael Roth eftir að Aron sagði starfi sínu lausu. Sá entist stutt og var Halldór Jóhann ráðinn til að stýra liðinu á HM. Þar komst liðið alla leið í milliriðla og vildi handknattleikssamband Barein semja við Halldór Jóhann með því skilyrði að hann væri ekki að þjálfa hér á landi.

„Ég var ekki tilbúinn til að fórna mínu starfi á Selfossi en þeir vildu mig í fullt starf og búsettan úti,“ sagði Halldór Jóhann við RÚV í dag.

Við Íslendingar munum samt eiga tvo fulltrúa í handboltanum á Ólympíuleikunum í Tókýó. Alfreð Gíslason er enn þjálfari Þýskalands og Dagur Sigurðsson mun stýra liði Japans líkt og á HM í Egyptalandi.

Í kvennaflokki gæti svo Þórir Hergeirsson verið á sínum hefðbundna stað með norska landsliðið en það kemur í ljós um helgina hvort liðið komist á Ólympíuleikana sem fram fara í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×