Um­fjöllun og viðtöl: Haukar - Stjarnan 26-25 | Dramatískar loka­mínútur á Ás­völlum

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
FH Haukar Olís deild karla vetur 2021 handbolti HSÍ
FH Haukar Olís deild karla vetur 2021 handbolti HSÍ Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Haukar höfðu betur í baráttuleik á Ásvöllum í kvöld, laskað lið Stjörnunnar barðist fram að loka mínútu en það dugði ekki til. Lokatölur 26-25 en munurinn fimm mörk í hálfleik, 16-11.

Leikurinn varð gestunum erfiður framan af. Sóknarlega voru þeir að erfiða á fyrsta korterinu þar sem liðið setti aðeins þrjú mörk úr 12 skotum, Andri Sigmarsson Scheving lokaði markinu á meðan Haukarnir nýttu sín færi. Staðan 9-3 þegar Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, tók leikhlé.

Eftir það breyttist leikur Stjörnunnar, þeir spiluðu 7 á 6 og unnu sig þar með inn í leikinn. Pétur Árni Hauksson átti góða inn komu skoraði þrjú mörk og var farinn að ógna vel fyrir utan.

Haukarnir skoruðu af vildi í fyrri hálfleik, markverðir Stjörnunnar aðeins með einn bolta varinn. Stefán Rafn Sigurmannsson byrjaði leikinn í sinni stöðu, vinstra horninu, skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleik og sýndi strax hvers hann er megnugur. Munurinn í hálfleik fimm mörk, 16-11, Haukum í vil.

Stjörnumenn mættu öflugir til leiks í síðari hálfleik, voru aggressívir varnarlega og fengu í kjölfarið markvörslu frá Sigurði Dan Óskarssyni sem var stórkostlegur í síðari hálfleik og stór ástæða þess að Stjörnumenn gerðu leik úr þessu hér á Ásvöllum.

Haukarnir höfðu þó alltaf undirtökin og héldu gestunum í tveggja til fjögurra marka fjarlægð lengst af í síðari hálfleik. Það var svo á loka mínútum leiksins sem Haukamenn tapa tveimur boltum í röð og Brynjar Hólm Grétarsson skoraði 23. mark gestanna þar sem hann minnkaði leikinn niður í eitt mark, 24-23 og Aron Kristjánsson, tók leikhlé.

Heimamenn höfðu sterkari taugar að lokum og unnu eins marks sigur, 26-25.

Af hverju unnu Haukar?

Þeir höfðu haft leikinn undir sinni stjórn frá upphafi. Þeir lentu á smá vegg þegar Stjarnan mætti af miklum krafti til leiks í seinni hálfleik en héldu þeim þó alltaf í tveggja, þriggja marka fjarlægð. Haukarnir hafa spilað betri leiki en þeir höfðu sterkari taugar að lokum og áttu sigurinn skilið.

Hverjir stóðu upp úr?

Andri Sigmarsson Scheving var frábær í markinu hjá Haukunum, var vel yfir 40% lengst af. Hann var algjörlega ástæðan fyrir þeirra forystu í hálfleik og eflaust ástæðan fyrir sigrinum að lokum.

Stefán Rafn mætti heldur betur vel til leiks, óvíst var með hans framlag í þessum fyrsta leik í íslensku deildinni síðan árið 2012 en hann var í byrjunarliðinu og var með fjögur mörk úr fimm skotum í fyrri hálfleik en endaði í 6 mörkum.

Ólafur Ægir Ólafsson og Atli Már Báruson áttu virkilega sterkan leik fyrir Hauka, báðir í 100% samanlagt með 11 mörk úr 11 skotum.

Brynjar Hólm Grétarsson fékk stórt hlutverk í fjarveru lykilmanna í dag. Var virkilega öflugur varnar og sóknarlega.

Sigurður Dan Óskarsson markvörður Stjörnunnar, varði ekkert í fyrri hálfleik en endaði leikinn í 40% markvörslu með 11 varða bolta, þarf af þrjú víti.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Stjörnunnar var lengst af í vandræðum. Þeir náðu áhlaupum en þurftu að hafa vel fyrir sínum mörkum þar til líða tók á síðari hálfleikinn. Markvarslan var engin í fyrri hálfeik en Sigurður Dan átti frábæran síðari hálfleik, svo það er ekki hægt að kvarta undan því.

Þá hefur Tjörvi Þorgeirsson átt betri leik, það kom ekkert út úr honum í kvöld og lítið kom frá Adami Hauki Baumruk og Geir Guðmundssyni.  

Hvað er framundan?

Næsta umferð er spiluð um helgina, á sunnudaginn mæta Haukar Valsmönnum á Hlíðarenda, stórleikur framundan þar, því næst fá Haukarnir KA í heimsókn á Ásvelli. Næsti leikur Stjörnunnar er gegn KA fyrir norðan, þar á eftir er það Stjarnan Afturelding í Mýrinni.

Stefán Rafn mættur á Ásvelli á ný

Stefán Rafn: Þetta var bara heppni, ég verð vonandi betri

Stefán Rafn Sigurmannsson var mættur á völlinn í sínum fyrsta leik fyrir Hauka síðan 2012. Hann skoraði 6 mörk í endurkomunni gegn Stjörnunni á Ásvöllum

„Þetta var bara fínt, ég er bara þreyttur. Ég er náttúrulega búinn að spila svo lítið síðastliðna eitt og hálfa árið svo þetta situr smá í manni svona strax eftir leik“ sagði Stefán Rafn, sem hefur lítið sem ekkert spilað vegna meiðsla og var það ástæðan fyrir heimkomunni frá Pick Szeged undir lok seinasta árs.

„Það var mjög gaman að koma hérna aftur, spila aðeins með strákunum. Mjög jákvætt að sækja þessi tvö stig eftir að við misstum þetta svolítið niður, við gerðum mikið af tæknifeilum, vorum ekki að vinna maður á mann og gerðum mikið af bara aulamistökum“ sagði Stefán Rafn um gang leiksins

Haukar höfðu öll tök á leiknum í fyrri hálfleik með fimm marka forystu í hálfleik og í nokkuð þægilegri stöðu eftir góða spilamennsku í fyrri hálfleiknum. Stefán vill ekki meina að þeir hafi ekki búist við þessum viðsnúningi gestanna

„þetta var kannski bara kæruleysi hjá okkur, við vorum bara að spila illa sóknarlega á köflum. Það varð bara erfitt að hlaupa á eftir þeim, en við hristum allavega upp í þessu og náðum í þessa tvo punkta“

Stefán byrjaði leikinn í horninu og spilaði nær allan leikinn sem er talsvert meira en hann sjálfur bjóst við fyrir leik

„Ég ætlaði ekki að spila svona rosalega mikið, það sýndi sig líka undir lokin að ég var orðinn mjög þreyttur. Það er bara „recovery“ á morgun og reyna að vera klár í næsta leik“

Stefán talaði um það fyrir leik að hann væri ekki orðinn 100% heill af sínum meiðslum en hann spilaði mjög vel í dag og skoraði 6 mörk, hann vill þó ekki gera mikið úr sinni frammistöðu

„Þetta var bara heppni, ég verð vonandi betri þegar ég verð orðinn 100%“ sagði Stebbi en fann hann fyrir mikilli pressu að mæta á völlinn eftir 8 ár í atvinnumennsku?

„Nei nei, ég er svo kærulaus, ég pæli svo lítið í þessu. Ég elska bara Hauka og líður ótrúlega vel hérna“ sagði Stefán Rafn að lokum

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira