Körfubolti

Brooklyn vann baráttuna um New York og rýkur upp

Sindri Sverrisson skrifar
James Harden kominn að körfu New York Knicks í sigrinum í nótt.
James Harden kominn að körfu New York Knicks í sigrinum í nótt. AP/Frank Franklin II

Línurnar eru teknar að skýrast í NBA-deildinni í körfubolta en liðin í efsta hlutanum í bæði vestur- og austurdeild fögnuðu sigri í nótt.

Brooklyn Nets unnu baráttuna um New York þegar þeir fengu Knicks í heimsókn í gær, 117-112. James Harden var einn af nokkrum sem skoruðu þrefalda tvennu í leikjum gærdagsins en hann var með 21 stig, 15 fráköst og 15 stoðsendingar. Kyrie Irving skoraði 34 stig og var stigahæstur Nets.

Eins og vonir stóðu til varð Brooklyn eitt albesta lið deildarinnar með komu Hardens í janúar. Eftir fimm sigra í röð er Brooklyn í 2. sæti austurdeildar með 27 sigra eins og Philadelphia 76ers, en 13 töp í stað 12 hjá Philadelphia.

Giannis og LeBron með þrefalda tvennu

Milwaukee Bucks eru svo í 3. sætinu með 25 sigra og 14 töp. Giannis Antetokounmpo fór fyrir liðinu í gær í 133-122 sigri gegn Washington Wizards.

Grikkinn gerði þrefalda tvennu í þriðja leiknum í röð en hann skoraði 31 stig, tók 15 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Eftir sigurinn góða á Utah Jazz áttu Golden State Warriors hins vegar ekki roð við meisturum Los Angeles Lakers í gær. LeBron James skoraði 22 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 10 fráköst, í 128-97 sigri Lakers.

Stephen Curry skoraði 27 stig og gaf tvær stoðsendingar. Þar með hefur hann gefið flestar stoðsendingar í sögu Golden State eða 4.855, einni fleiri en Guy Rodgers. Þetta afrekaði Curry degi eftir að hafa orðið 33 ára, á sinni tólftu leiktíð í NBA.

Lakers eru í 3. sæti vesturdeildar með 26 sigra líkt og Phoenix Suns og LA Clippers sem einnig unnu í nótt. Utah Jazz er á toppnum með sigurhlutfallið 28/10, Phoenix er með 26/12, Lakers 26/13 og Clippers 26/15.

Úrslitin í nótt:

  • Charlotte 122-116 Sacramento
  • Washington 122-133 Milwaukee
  • Detroit 99-109 San Antonio
  • Brooklyn 117-112 New York
  • Dallas 99-109 LA Clippers
  • Denver 121-106 Indiana
  • Phoenix 122-99 Memphis
  • Golden State 97-128 LA Lakers
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×