Innlent

Kristján Þór ekki í framboð aftur

Kjartan Kjartansson skrifar
Kristján Þór hefur setið á þingi frá 2007 og verið ráðherra frá árinu 2013, fyrst sem heilbrigðisráðherra, síðan menntamálaráðherra og nú sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór hefur setið á þingi frá 2007 og verið ráðherra frá árinu 2013, fyrst sem heilbrigðisráðherra, síðan menntamálaráðherra og nú sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Vísir/Vilhelm

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar ekki að gefa kost á sér í Alþingiskosningum sem fara fram í haust. Þetta segir hann í viðtali við Morgunblaðið í dag.

Í viðtalinu segir Kristján Þór að hann ætli ekki að draga sig alfarið í hlé frá stjórnmálum og að hann verði áfram virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins þó að hann verði ekki lengur í forystuhlutverki eftir þetta kjörtímabil.

„Ég hef hugsað þetta og búinn að gera það upp við mig að þetta sé orðið gott eftir 35 ára þjónustu í stjórnmálum og ætla því ekki að leita endurkjörs í haust,“ segir hann við blaðið.

Kristján Þór hefur legið undir þó nokkurri gagnrýni á þessu kjörtímabili vegna náinna tengsla sinna við stjórnendur Samherja, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hóf meðal annars frumkvæðisathugun á hæfi hans vegna þess.

Þegar Samherji var sakaður um að hafa mútað ráðamönnum í Namibíu til að tryggja sér kvóta árið 2019 sagði Kristján Þór sig frá því að fjalla um málefni fyrirtækisins. Þá hafði komið í ljós að hann hafði verið kynntur fyrir sumum þeirra sem voru sakaðir um mútuþægni á skrifstofum Samherja árið 2014. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, fór með málin í hans stað.

Sem landbúnaðarráðherra olli Kristján Þór einnig nokkrum úlfaþyt með ummælum sínum á Alþingi um að það að vera sauðfjárbóndi væri lífsstíll í október. Landssamtök sauðfjárbænda voru á meðal þeirra sem gagnrýndu ráðherrann harðlega vegna ummælanna og sökuðu hann um að vera ekki upplýstan um stöðu greinarinnar.

Í skoðanakönnun sem gerð var fyrir Stöð 2 fyrr á þessu ári reyndist Kristján Þór afgerandi óvinsælasti ráðherra ríkisstjórnarinnar. Aðeins níu prósent svarenda sögðust ánægð með störf hans.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×