Handbolti

Lærisveinar Alfreðs björguðu stigi í fyrsta leik í forkeppni ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason er að reyna að koma þýska handboltalandsliðinu inn á Ólympíuleikana í Tókýó.
Alfreð Gíslason er að reyna að koma þýska handboltalandsliðinu inn á Ólympíuleikana í Tókýó. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Þýska karlalandsliðið í handbolta byrjaði á dramatísku jafntefli á móti Svíum í fyrsta leik sínum í forkeppni Ólympíuleikanna en þjóðirnar eru í riðli sem er spilaður í Berlín.

Marcel Schiller skoraði jöfnunarmarkið úr vinstra horninu nokkrum sekúndum fyrir leikslok og jafnaði metin í 25-25. Þjóðverjar og Svíar keppa um tvö laus sæti í riðlinum við Slóveníu og Alsír.

Hornamennirnir Marcel Schiller og Timo Kastening voru markahæstir hjá Þjóðverjum, Schiller með fimm mörk og Kastening með fjögur. Albin Lagergren var marhæstur hjá Svíum með sjö mörk en besti maður liðsins var markvörðurinn Andreas Palicka.

Þjóðverjar voru með frumkvæðið í fyrri hálfleiknum og náðu um tíma þriggja marka forystu, 11-8, en í hálfleik munaði bara einu marki, 14-13.

Svíar byrjuðu seinni hálfleikinn frábærlega með Andreas Palicka í miklu stuði í markinu. Palicka varði sjö af fyrstu tíu skotum Þjóðverja og Svíar komust þremur mörkum yfir, 20-17, eftir að hafa unnið fyrstu þrettán mínútur hálfleiksins 7-3.

Alfreð Gíslason tók þá leikhlé og reyndi að ræsa aftur sitt lið eftir þessa slæmu byrjun í seinni hálfleiknum. Það hafði ekki nógu góð áhrif og lítið breyttist fyrst um sinn.

Þjóðverjar voru enn þremur mörkum undir, 21-24, þegar Alfreð tók annað leikhlé sex og hálfri mínútu fyrir leikslok. Þá náði Alfreð að vekja sína menn. Þýska liðið náði að vinna upp muninn á lokamínútum og tryggja sér stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×