Körfubolti

Isabella Ósk sló Íslandsmetið í fráköstum í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Isabella Ósk Sigurðardóttir er frábær frákastari og hér sést hún taka eitt slíkt í Domino´s deildinni í vetur.
Isabella Ósk Sigurðardóttir er frábær frákastari og hér sést hún taka eitt slíkt í Domino´s deildinni í vetur. Samsett/S2Sport&Vilhelm

Isabella Ósk Sigurðardóttir setti nýtt frákastamet í efstu deild kvenna í gærkvöldi þegar hún hjálpaði Breiðabliki að vinna sautján stiga sigur á Snæfelli í Domino´s deildinni.

Isabella Ósk tók alls 28 fráköst í leiknum sem er það mesta sem íslenskur leikmaður hefur tekið í einum leik í efstu deild kvenna. Isabella var einnig með 21 stig í leiknum og náði því svokallaðri tröllatvennu.

Isabella Ósk tók þar með metið af tveimur leikmönnum en það var áður í eigu þeirra Signýjar Hermannsdóttur og Helgu Jónasdóttur.

Helga Jónasdóttir átti metið ein í rúm sjö ár en hún tók 27 fráköst í leik með Njarðvík á móti KR 27. janúar 2001. Helga var einnig með 11 stig í leiknum.

Signý Hermannsdóttir jafnaði síðan metið þegar hún tók 27 fráköst í leik með Val á móti Keflavík 21. janúar 2009. Signý var einnig með 18 stig og 10 varin skot í leiknum.

Isabella var í raun aðeins einu frákasti frá því að jafna karlametið en Grindvíkingurinn Guðmundur Bragason og Njarðvíkingurinn Helgi Rafnsson náðu báðir að taka 29 fráköst í einum leik á sínum tíma, Guðmundur árið 1988 en Helgi ári síðar.

Siarre Evans á enn frákastametið í efstu deild kvenna en hún tók 31 frákast í leik með Haukum í febrúar 2013 og bætti þá hálf árs met LeLe Hardy um eitt. Keflvíkingurinn Daniela Wallen Morillo var nálægt því að jafna það á dögunum þegar hún tók 30 fráköst í framlengdum leik Keflavíkur og Hauka.

Isabella Ósk er 23 ára gömul og er með 10,5 stig og 14,8 fráköst að meðaltali í leik. Í síðustu tveimur leikjum hefur hún aftur á móti skoraði 40 stig og tekið 45 fráköst auk þess að verja 6 skot.

Flest fráköst íslensks leikmanns í einum deildarleik í efstu deild kvenna:

 • 28 - Isabella Ósk Sigurðardóttir, Breiðabliki á móti Snæfelli 2021
 • 27 - Helga Jónasdóttir, Njarðvík á móti KR 2001
 • 27 - Signý Hermannsdóttir, Val á móti Keflavík 2009
 • 25 - Margrét Kara Sturludóttir, Stjörnunni á móti Hamri 2015
 • 24 - Anna María Sveinsdóttir, Keflavík á móti Grindavík 2002
 • 24 - Svandís Sigurðardóttir, ÍS á móti Grindavík 2004
 • 23 - Gréta María Grétarsdóttir, KR á móti Keflavík 2004
 • 23 - Helena Sverrisdóttir, Haukum á móti Keflavík 2005
 • 23 - Signý Hermannsdóttir, ÍS á móti Grindavík 2005
 • 23 - Signý Hermannsdóttir, KR á móti Grindavík 2009
 • 23 - Signý Hermannsdóttir, Val á móti Hamri 2009Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.