Körfubolti

Miami Heat sendir leikmann í leyfi vegna gyðingahaturs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Meyers Leonard notaði niðrandi orð um gyðinga þegar hann streymdi beint frá tölvuleikjaspilun sinni á dögunum.
Meyers Leonard notaði niðrandi orð um gyðinga þegar hann streymdi beint frá tölvuleikjaspilun sinni á dögunum. getty/Scott Taetsch

Miami Heat, silfurlið NBA-deildarinnar í fyrra, hefur sett miðherjann Meyers Leonard í ótímabundið leyfi eftir að hann lét niðrandi ummæli um gyðinga falla þegar hann streymdi beint frá sjálfum sér að spila tölvuleik.

NBA-deildin rannsakar nú ummæli Leonards og á meðan rannsókninni stendur verður hann ekki viðloðandi lið Miami sem er í 6. sæti Vesturdeildarinnar.

Miami hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem ummæli Leonards eru fordæmd. „Orðin sem Meyers Leonard notaði voru röng og við líðum ekki hatursorðræðu frá neinum tengdum félaginu,“ sagði í yfirlýsingunni.

Leonard hefur beðist afsökunar á ummælum sínum. Hann sagðist ekki sér neinar málsbætur og væri miður sín. Svo gæti farið að NBA myndi refsa honum fyrir ummælin.

Í kjölfar ummæla Leonards hafa nokkur tölvuleikjafyrirtæki slitið samstarfinu við hann.

Leonard, sem er 29 ára og á sínu níunda tímabili í NBA, meiddist illa á öxl í janúar og verður ekki meira með Miami í vetur vegna meiðslanna. Hann lék aðeins þrjá leiki með Miami áður en hann meiddist.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×