Körfubolti

Kyssti næstum því hringinn þegar hann vann troðslukeppnina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anfernee Simons er fyrsti leikmaður Portland Trail Blazers sem vinnur troðslukeppnina.
Anfernee Simons er fyrsti leikmaður Portland Trail Blazers sem vinnur troðslukeppnina. getty/Kevin C. Cox

Anfernee Simons, leikmaður Portland Trail Blazers, sýndi mögnuð tilþrif þegar hann vann troðslukeppnina sem fór fram í hálfleik í stjörnuleik NBA-deildarinnar í Atlanta í nótt.

Simons hafði betur gegn Obi Toppin, leikmanni New York Knicks, og Cassius Stanley sem leikur með Indiana Pacers. Hann er fyrsti leikmaður Portland sem vinnur troðslukeppnina.

Í síðustu tilraun sinni kyssti Simons nánast hringinn þegar hann tróð boltanum ofan í körfuna.

„Á æfingum kyssti ég aldrei hringinn en hugsaði með mér að ég yrði að reyna það,“ sagði Simons.

Önnur troðsla Simons var óður til hetjunnar hans, Tracy McGrady, en hann klæddist treyju með nafninu hans og hermdi eftir troðslu hans í troðslukeppninni árið 2000.

Í dómnefnd troðslukeppninnar voru fimm fyrrverandi troðslumeistarar: Dominique Wilkins (1985, 1990), Spud Webb (1986), Dee Brown (1991), Jason Richardson (2002, 2003) og Josh Smith (2005).

Lið LeBrons James vann stjörnuleikinn gegn liði Kevins Durant, 170-150. Giannis Antetokounmpo var valinn maður leiksins en hann skoraði 35 stig og hitti úr öllum sextán skotum sínum utan af velli.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×