Körfubolti

Antetokounmpo valinn bestur í stjörnuleiknum og sló 53 ára gamalt met

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Giannis Antetokounmpo var valinn besti leikmaður stjörnuleiksins í fyrsta sinn.
Giannis Antetokounmpo var valinn besti leikmaður stjörnuleiksins í fyrsta sinn. getty/Kevin C. Cox

Lið LeBrons James vann tuttugu stiga sigur á liði Kevins Durant, 170-150, í stjörnuleik NBA-deildarinnar í Atlanta í nótt.

Giannis Antetokounmpo skoraði 35 stig, var valinn maður leiksins og fékk verðlaun sem hafa verið nefnd eftir Kobe Bryant heitnum.

Antetokounmpo hitti úr öllum sextán skotum sínum í leiknum sem er met í stjörnuleiknum. Hal Greer átti gamla metið en hann hitti úr öllum átta skotum sínum í stjörnuleiknum 1968.

Lið LeBrons var með undirtökin allan leikinn og var tuttugu stigum yfir í hálfleik, 100-80.

Damian Lillard skoraði 32 stig fyrir lið LeBrons og Stephen Curry 28. LeBron sjálfur var rólegur með aðeins fjögur stig. Chris Paul gaf sextán stoðsendingar fyrir lið LeBrons og hefur nú gefið flestar stoðsendingar í sögu stjörnuleiksins.

Bradley Beal, stigahæsti leikmaður NBA, skoraði mest fyrir lið Durants, eða 26 stig. Kyrie Irving skoraði 24 stig og gaf tólf stoðsendingar.

Anfernee Simons, leikmaður Portland Trail Blazers, vann troðslukeppnina sem fór fram í hálfleik í stjörnuleiknum. Curry vann svo þriggja stiga keppnina í annað sinn á ferlinum.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×