Körfubolti

NBA: Harden í þrennuham á gamla heimavellinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden fór á kostum með Brooklyn Nets á móti Houston Rockets í nótt og var því kátur þegar hann var tekinn af velli í lokin.
James Harden fór á kostum með Brooklyn Nets á móti Houston Rockets í nótt og var því kátur þegar hann var tekinn af velli í lokin. AP/Mark Mulligan

James Harden fór á kostum á móti sínum gömlu félögum og á sínum gamla heimavelli. Philadelphia 76ers vann uppgjör bestu liða deildanna og Los Angeles Lakers tapaði naumlega á hvíldarkvöldi LeBron James.

James Harden bauð upp á þrennu í endurkomu sinni til Houston en hann skoraði 29 stig, gaf 14 stoðsendingar og tók 10 fráköst í 132-114 sigri Brooklyn Nets á Houston Rockets. Þetta var tíundi sigur Brooklyn liðsins í síðustu ellefu leikjum.

Harden hefur nú verið með átta þrennur í búningi Brooklyn Nets liðsins en hann var líka með eina slíka í leiknum á undan. Þá var hann ekki með tapaðan bolta en í nótt tapaði hann boltanum átta sinnum.

Kyrie Irving skoraði 24 stig og Joe Harris var með 19 stig en Nets liði lék sinn níunda leik í röð án Kevin Durant. John Wall skoraði 36 stig fyrir Houston og Victor Oladipo var með 33 stig en það dugði ekki til. Báðir hafa ekki skorað meira í einum leik í vetur.

Joel Embiid var með 40 stig og 19 fráköst þegar besta liðið í Austurdeildinni, Philadelphia 76ers, vann besta liðið í Vesturdeildinni, Utah Jazz, 131-123, í framlengdum leik. Þetta var annað tap Utah Jazz í röð.

Embiid tryggði Philadelphia 76ers framlenginguna með þriggja stiga körfu en í framlengingunni skoraði Tobias Harris 11 af sínum 22 stigum. Ben Simmons skoraði síðan 17 stig en hjá Utah var Donovan Mitchell með 33 stig og þeir Bojan Bogdanovic og Mike Conley skoruðu báðir 18 stig.

Draymond Green fékk á sig ruðning í lokasókn Golden State Warriors þegar liðið tapaði 106-108 á móti Portland Trail Blazers. Damian Lillard skoraði fimm síðustu stig leiksins og endaði með 22 stig en gamla kempan Carmelo Anthony kom líka með 22 stig inn af bekknum.

Stephen Curry skoraði 35 stig í leiknum og Draymond Green var með 12 stoðsendingar, 9 fráköst og 5 stig. Andrew Wiggins var næststigahæstur í liðinu með 14 stig.

Los Angeles Lakers tapaði 120-123 á móti Sacramento Kings en LeBron James var hvíldur í leiknum. Buddy Hield skoraði 29 stig fyrir Sacramento liðið og var með 23 stig og 8 stoðsendingar.

Það voru margir að reyna að taka upp hanskann fyrir James en Lakers liðið lék líka áfram án Anthony Davis. Dennis Schröder var með 28 stig og 9 stoðsendingar, Montrezl Harrell skoraði 26 stig og tók 11 fráköst og Kyle Kuzma var með 25 stig og 12 fráköst.

Það voru fleiri þrennu í nótt eins og sjá má hér fyrir ofan. Liðsfélagarnir hjá Detroit Pistons, Dennis Smith Jr. (10 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar) og Mason Plumlee (14 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar) voru báðir með þrennu í sigri á vængbrotnu liði Toronto Raptors og þá var T.J. McConnell hjá Indiana Pacers með þrennu með 10 stolnum boltum, 16 stigum og 13 fráköstum.

Úrslitin í NBA í nótt:

  • Portland Trail Blazers - Golden State Warriors 108-106
  • Sacramento Kings - Los Angeles Lakers 123-120
  • Philadelphia 76ers - Utah Jazz 131-123
  • Houston Rockets - Brooklyn Nets 114-132
  • Toronto Raptors - Detriot Pistons 105-129
  • Cleveland Cavaliers - Indiana Pacers 111-114
  • Orlando Magic - Atlanta Hawks 112-115
  • Minnesota Timberwolves - Charlotte Hornets 102-135
  • New Orleans Pelicans - Chicago Bulls 124-128
  • Dallas Mavericks - Oklahoma City Thunder 87-78
NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.