Innlent

Ekki viss um að ó­venju margar fæðingar undan­farnar vikur séu af­leiðingar sam­komu­bannsins

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa
Anna Sigríður Vernharðsdóttir er yfirljósmóðir á fæðingarvakt Landspítalans.
Anna Sigríður Vernharðsdóttir er yfirljósmóðir á fæðingarvakt Landspítalans. STÖÐ2

Óvenju mörg börn hafa fæðst á fæðingarvakt Landspítalans undanfarnar tvær vikur, eða hátt í sautján á dag. 

Um þrjú þúsund og tvö hundruð börn fæðast árlega á Landspítalanum, en óvenju mikið annríki hefur verið þar að undanförnu.

„Núna síðustu tvær vikur hafa verið að fæðast hérna tíu til ellefu börn að meðaltali en svona á venjulegum degi, ef maður tekur svona meðaltal yfir árið þá eru það svona átta til níu börn sem fæðast að meðaltali hér. Þannig að það er svona búið að vera líflegt hérna,“ sagði Anna Sigríður Vernharðsdóttir, yfirljósmóðir á fæðingarvakt Landspítalans.

„Í þessum önnum núna síðustu tvær vikurnar þá komu flest sautján börn einn daginn.“

Samkomubannsbörn?

Hún segir að almennt sé ekki hægt að spá fyrir um annríki á fæðingardeildinni.

„Frekar hægt að segja að það séu tveir mánuðir sem skera sig úr að vera ekki svo annasamir, það er desember og janúar sem eru svona síst annasamir en það hefur verið óvenju annasamt síðustu tvær vikurnar,“ sagði Anna.

Það er oft talað um þjóðhátíðarbörn, er hægt að tala um samkomubannsbörn í dag?

„Kannski en það er ekkert óvenjulega mörg börn að fæðast eins og í þessum mánuðu eða við eigum ekkert von á óvenjulega mörgum börnum á næstu mánuðum.“

Hún segir einstaklega ánægjulegt að fá að taka á móti nýju lífi en starfsfólkið fagnar því líka sérstaklega að starfsemi fæðingarvaktarinnar sé loks farin að taka á sig eðlilegri mynd, en þar, líkt og annars staðar, voru settar strangar skorður í heimsfaraldrinum.

„Það er alltaf líf og fjör hérna og okkur finnst mjög gaman að vinna hér og eiginlega bara forréttindi að fá að vera með fólki hérna á þessari stundu. Það er alltaf líf og fjör.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.