Handbolti

Erum með ungt og nýtt lið svo það þýðir ekkert að vera spá í fram­haldið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Daði, þjálfari Gróttu, er búinn að brenna sig á að hugsa of langt fram í tímann. Nú er það bara einn leikur í einu.
Arnar Daði, þjálfari Gróttu, er búinn að brenna sig á að hugsa of langt fram í tímann. Nú er það bara einn leikur í einu. Vísir/Vilhelm

Arnar Daði Arnarsson segir það leiðinlegt að tala í klisjum en það sé nákvæmlega það sem Gróttu liðið sé að gera. Taka einn leik fyrir í einu. Hann ræddi við Stöð 2 og Vísi í Sportpakkanum í gærkvöld.

Gróttumenn gerðu sér lítið fyrir og unnu sex marka sigur á Selfyssingum, 26-20, sem eru með eitt best mannaða lið landsins. Í upphafi leiktíðar var það talið nánast vonlaust verk að gera Gróttu að samkeppnishæfu liði í deild þeirra bestu. Annað hefur komið á daginn en Grótta er með níu stig í 10. sæti deildarinnar.

„Skrítið, við förum upp þarna í miðju Covid og okkur fannst á einhverjum tímapunkti eins og leikmannaglugginn væri ekkert alltof stór. Þegar uppi er staðið náðum við í frábæra blöndu af leikmönnum, óreyndir leikmenn sem hafa fengið fá tækifæri í bland við leikmenn sem hafa spilað margar mínútur og mörg tímabil í deildinni. Þegar uppi er staðið og mótið er hálfnað erum við á fjandi góðum stað,“ sagði Arnar Daði Arnarsson í viðtalinu í gær.

Um sigurinn á Selfyssingum

„Ég held við höfum tekið það í tímabilið að allir leikir gefa okkur, það er bara spurning hvað það er. Þú talar um að þetta hafi verið óvæntustu úrslitin en ég veit ekki með það, mér fannst þetta vera sannfærandi og við vorum tilbúnir í bátana. Það er þétt leikið, við vissum það og Selfyssingarnir kannski í erfiðri stöðu þannig við nýttum okkur það og sigurinn var góður.“

Varðandi Gróttu liðið

„Ég ætla ekki að tala um það – svona reynslulítill – að ég sé með einhverja töfralausn en það gengur vel núna og maður er að reyna að njóta augnabliksins. Þetta er ekkert sjálfsagt, það er ekkert sjálfsagt að liðið sé svona samrýnt og allir klárir í bátana og gera það sem mönnum er sagt að gera. Við æfum mjög vel, það eru langir myndbandsfundir en það virðist ekki skipta neinu máli. Þegar menn sjá að þeir eru að uppskera þá eru þeir tilbúnir að leggja meira á sig en vanalega.“

„Ég segi bara sem betur fer erum við að ná í þessa tvo sigurleiki núna í röð og þrátt fyrir við séum bara með þrjá sigurleiki eftir 11 leiki erum við búnir að sýna það og sanna að undirbúningur hjálpar liðum mikið. Þetta snýst um svo marga þætti,“ sagði þessi ungi þjálfari einnig.

Hvernig sér Arnar Daði framhaldið fyrir sér?

„Bara Haukar á mánudaginn, síðan kemur Stjarnan. Ég sagði eftir leikinn í gær – ég veit það er viðbjóðslega leiðinlegt að heyra þetta – en við tökum bara einn leik fyrir í einu. Það er að koma okkur á þann stað sem við erum.“

„Við erum með ungt og nýtt lið svo það þýðir ekkert að vera spá í framhaldið. Ég gerði þau grundvallarmistök að vera spá of langt fram í tímann fyrir leikinn gegn Þór og var okkur kippt niður á jörðina en ég er fullviss um að sá leikur hefur hjálpað okkur í síðustu tveimur leikjum.“

„Ég vaknaði eftir Þórsleikinn brosandi ótrúlegt en satt, það er nýr leikur á fimmtudaginn og strákarnir voru klárir í það verkefni. Æfðum fáránlega vel fyrir Fram leikinn og ef eitthvað þá hjálpaði þetta tap fyrir Þór okkur í undirbúningnum. Náðum í sigur þar og fórum strax aftur niður á jörðina fyrir leikinn á Selfossi. Það er nýtt verkefni strax á mánudaginn á móti Haukum og bara frábært að fara á uppeldisvöllinn og loksins áhorfendur, það verður bara vonandi fullt hús og mikil stemmning,“ sagði Arnar Daði, þjálfari Gróttu, að lokum.

Klippa: Arnar Daði: Lengra viðtal

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir

„Þegar mótið er hálfnað erum við á fjandi góðum stað“

Gróttumenn gerðu sér lítið fyrir og unnu sex marka sigur á Selfyssingum, 26-20, sem eru með eitt best mannaða lið landsins. Í upphafi leiktíðar var það talið nánast vonlaust verk að gera Gróttu að samkeppnishæfu liði í deild þeirra bestu.

Arnar Daði: Við erum bara f******* góðir

„Þetta er bara frábær sigur, og ég var að segja við strákana að þetta er ekkert sjálfsagt,“ sagði Arnar Daði Arnarsson þjálfari Gróttu eftir sigurinn gegn Selfoss í kvöld.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.