Handbolti

„Þessi leikur í dag hefði skilað sigri á móti Fram“

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Halldór Jóhann ræðir við Jónas Elíasson dómara.
Halldór Jóhann ræðir við Jónas Elíasson dómara. vísir/hulda margrét

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss í handbolta, var allt annað en sáttur með frammistöðu sinna manna sem sótti Hauka heim á Ásvelli í kvöld. Selfoss töpuðu með fimm mörkum, 25-20.

„Fyrstu viðbrögð eru bara að ég er gríðarlega svekktur að hafa ekki fengið meira út úr leiknum. Við spilum góða vörn en 14 tapaða bolta á móti kannski 6 frá Haukunum. Það er svona stóri munurinn,“ sagði Halldór Jóhann eftir leik.

Leikurinn var hnífjafn framan af en Haukar leiddu með tveimur þegar flautað var til hálfleiks, 11-9.

„Í fyrri hálfleik erum við með 45% sóknarnýtingu. Við erum bara slakir sóknarlega, virkilega slakir. Oft á tíðum erum við kannski að flýta okkur of mikið. Ég er svekktur yfir þessum hlutum, sem er kannski auðvelt að laga en það gekk ekki í dag.“

„Við erum tveimur undir í hálfleik. Þeir fara strax í fimm mörk sem setur þá í þægilega stöðu og á sama tíma erum við að kasta boltanum frá okkur. Við erum með alltof marga tapaða bolta.“

Stutt er á milli leikja í Olís-deildinni og því mikið álag á liðinum. Aðspurður hvort að það hafi áhrif á frammistöðu liðsins sem hefur tapað síðustu tveimur leikjum hafði Halldór þetta að segja.

„Gæti alveg að það sé leikjaálag. Það er kannski aðalega að það gefst enginn tími. Við vorum betri í dag en við vorum á móti Fram. Auðvitað fer leikjaálagið að hafa áhrif en mér finnst það einföld afsökun. Þessi leikur í dag hefði skilað sigri á móti Fram.“

Selfyssingar taka á móti Gróttu í næstu umferð Olís-deildar karla.

„Það er ekki langur tími. Við erum klárir í næsta leik og klárir að púsla okkur saman og sjá hvernig ástandið er á liðinu. Svo er það áfram gakk og það er ekkert annað í boði,“ sagði Halldór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×