Körfubolti

NBA dagsins: Kareem og Malone fengu félagsskap í 35 þúsund stiga klúbbnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James skráði sig í sögubækur NBA-deildarinnar í nótt.
LeBron James skráði sig í sögubækur NBA-deildarinnar í nótt. getty/Katelyn Mulcahy

Meðlimum í 35 þúsund stiga klúbbnum í NBA-deildinni í körfubolta fjölgaði í nótt þegar LeBron James skoraði sitt 35 þúsund stig í tapi Los Angeles Lakers fyrir Brooklyn Nets, 98-109.

LeBron skoraði 32 stig, tók átta fráköst og gaf tíu stoðsendingar í leiknum í nótt. Það dugði þó ekki til. Lakers var án Anthonys Davis og Dennis Schröder, tveggja af þremur stigahæstu mönnum liðsins. Kevin Durant var fjarri góðu gamni hjá Brooklyn vegna meiðsla.

„Að missa AD og svo leikstjórnandann okkar er mikið áfall. En það vantar líka leikmenn hjá þeim. Hvorugt liðið var fullskipað. Við spiluðum bara ekki eins vel og við getum. Þeir eiga hrós skilið,“ sagði LeBron eftir leikinn.

Hann komst í hóp með Abdul-Jabbar og Malone þegar hann setti niður vítaskot undir lok fyrri hálfleiks.

LeBron hefur nú skorað 35.017 stig. Hann vantar 1.911 stig til að ná Malone og 3.370 stig til að ná Abdul-Jabbar.

LeBron er yngstur í sögu NBA til að ná því að skora 35 þúsund stig. Hann var einnig yngstur til að skora fimm, tíu, tuttugu og þrjátíu þúsund stig.

Lakers er í 2. sæti Vesturdeildarinnar með 22 sigra og átta töp. Heitasta lið NBA, Utah Jazz, er á toppnum með 24 sigra og fimm töp.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr leikjum Lakers og Brooklyn, Milwaukee Bucks og Toronto Raptors, Sacramento Kings og Miami Heat auk bestu tilþrifa næturinnar.

Klippa: NBA dagsins 19. febrúar

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

 

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×