Körfubolti

Utah vann uppgjör bestu liða vesturs og austurs

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jordan Clarkson héldu engin bönd gegn Philadelphia 76ers.
Jordan Clarkson héldu engin bönd gegn Philadelphia 76ers. getty/Alex Goodlett

Utah Jazz vann Philadelphia 76ers, 134-123, í uppgjöri toppliða Vestur- og Austurdeildarinnar í NBA í nótt. Þetta var áttundi sigur Utah í röð og nítjándi sigur liðsins í síðustu tuttugu leikjum.

Jordan Clarkson skoraði fjörutíu stig af bekknum fyrir Utah sem hefur verið heitasta lið NBA-deildarinnar undanfarnar vikur. Donovan Mitchell skoraði 24 stig og Joe Ingles tuttugu.

Ben Simmons setti persónulegt met með því að skora 42 stig fyrir Philadelphia sem er enn á toppi Austurdeildarinnar þrátt fyrir þrjú töp í röð. Simmons tók einnig níu fráköst og gaf tólf stoðsendingar í leiknum. Joel Embiid lék ekki með Philadelphia í nótt vegna meiðsla.

Kyrie Irving skoraði fjörutíu stig þegar Brooklyn Nets sigraði Sacramento Kings, 125-136. Hann hitti úr níu af ellefu þriggja stiga skotum sínum. Alls setti Brooklyn niður 27 þrista í leiknum sem er félagsmet.

 James Harden var með myndarlega þrefalda tvennu fyrir Brooklyn: 29 stig, þrettán fráköst og fjórtán stoðsendingar. Hassan Whiteside skoraði 26 stig og tók sextán fráköst fyrir Sacramento.

Stephen Curry var með 36 stig í sigri Golden State Warriors á Cleveland Cavaliers, 129-98. Curry hitti úr sjö af ellefu þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Golden State er í áttunda sæti Vesturdeildarinnar eftir að hafa verið slakasta lið hennar á síðasta tímabili þegar Curry var fjarri góðu gamni vegna meiðsla.

Los Angeles Clippers vann fjórða leikinn í röð er liðið bar sigurorð af Miami Heat, 125-118, á heimavelli. Paul George og Kawhi Leonard léku ekki með Clippers í nótt. 

Marcus Morris skoraði 32 stig fyrir heimamenn og Ivica Zubac var með 22 stig og átta fráköst af bekknum. Jimmy Butler skoraði þrjátíu stig fyrir Miami, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar.

Úrslitin í nótt

  • Utah 134-123 Philadelphia
  • Sacramento 125-136 Brooklyn
  • Golden State 129-98 Cleveland
  • LA Clippers 125-118 Miami
  • Indiana 112-120 Chicago
  • Washington 131-119 Houston
  • NY Knicks 123-112 Atlanta

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×