Handbolti

Í áfalli eftir að þjálfari ÍBV stjakaði við henni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Britney Cots er á sínu þriðja tímabili með FH.
Britney Cots er á sínu þriðja tímabili með FH. fh

Britney Cots, leikmaður handboltaliðs FH, var afar ósátt við Sigurð Bragason, þjálfara ÍBV, eftir að hann stjakaði við henni í leik liðanna í Olís-deildinni 30. janúar.

Í viðtali við mbl.is fer Britney yfir atvikið. Hún ætlaði að biðja Hörpu Valeyju Gylfadóttur, leikmann ÍBV, afsökunar eftir að hafa lent í samstuði við hana. Sigurður, sem hlúði að Hörpu, stjakaði þá við Britney sem brá mjög.

„Ég ætlaði að biðja hana af­sök­un­ar, en þjálf­ar­inn brást svona við. Ég var í sjokki eft­ir þetta at­vik því þetta á ekki að ger­ast. Hann ýtti mér harka­lega í burtu og vildi ekki sjá mig. Ég var í áfalli en mér fannst rétt­ast að halda áfram að spila því þetta var hörku­leik­ur. Þess vegna brást ég ekki verr við þessu. Mér sýnd­ist líka dóm­ar­arn­ir sjá at­vikið, en þeir gerðu ekk­ert í því,“ sagði Britney. Atvikið má sjá á 1:03:30 í myndbandinu hér fyrir neðan.

Britney segir að öðruvísi hefði verið tekið á málinu ef það hefði komið upp í karlaleik. 

„Þegar ég kom heim eft­ir leik­inn horfði ég aft­ur á at­vikið og ég hugsaði mikið um það sem hafði gerst. Fyr­ir mér er völl­ur­inn staður sem þér á að líða vel á, en þarna leið mér ekki vel og mér fannst ég óör­ugg. Eina sem ég bið um er virðing frá öll­um svo við get­um spilað eins vel og mögu­lega hægt er. Það hefði allt orðið vit­laust ef þetta hefði gerst í karla­leik. Ég hefði getað brugðist allt öðru­vísi við þessu en ég vildi halda áfram að spila og hjálpa liðinu. Ég vil tala um þetta því eng­inn leikmaður á að lenda í þessu, sér­stak­lega ekki ung­ar stelp­ur,“ sagði Britney.

Senegalska landsliðkonan telur sig fá ósanngjarna meðferð frá dómurum í Olís-deildinni, sérstaklega eftir atvik þar sem Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram, meiddist þegar Britney varð fyrir því óláni að fara með höndina í auga hennar. Steinunn missti sjónina tímabundið en er komin aftur á ferðina.

„Já, mér finnst það. Í einu at­viki var ég tek­in úr um­ferð og svo var brotið aug­ljós­lega á mér og ekk­ert var dæmt, svo strax í kjöl­farið í hraðaupp­hlaupi fékk ég dæmd­ar tvær mín­út­ur á mig þegar ég var ekki ná­lægt nein­um. Dóm­ar­inn ætlaði að gefa liðsfé­laga mín­um tvær, en hætti við og gaf mér tvær. Mér fannst það mjög skrítið, dóna­legt og ósann­gjarnt. Það var líka mjög skrítið að sjá dóm­ar­ana ekki taka á því þegar þjálf­ar­inn ýtti mér,“ sagði Britney sem veltir því fyrir sér hvort þjóðerni hennar hafi áhrif á það hvernig dómarar dæma hjá henni.

„Það er erfitt að segja. Það á ekki að skipta máli hver á í hlut, en auðvitað var fólk í áfalli að sjá Stein­unni svona slasaða, hún er risa­stórt nafn í ís­lensk­um hand­bolta. Kannski hef­ur það eitt­hvað með það að gera að ég sé út­lend­ing­ur og hún svona stórt nafn, ég veit það ekki.“

Í viðtalinu hrósar Britney Steinunni fyrir viðbrögð hennar eftir atvikið í leik Fram og FH í janúar og segir að þær hafi ræðst oft við síðan þá. „Hún hef­ur verið virki­lega góð og al­menni­leg. Við höf­um talað reglu­lega sam­an eft­ir þetta og hún tók þessu rosa­lega vel.“

Britney er á sínu þriðja tímabili hjá FH. Hún er markahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með 39 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×