Körfubolti

Kanadíska liðið í NBA þarf að spila restina af heimaleikjum sínum á Flórída

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyle Lowry og félagar í Toronto Raptors spila heimaleiki sína á tímabilinu í Flórída fylki.
Kyle Lowry og félagar í Toronto Raptors spila heimaleiki sína á tímabilinu í Flórída fylki. Getty/Mike Ehrmann

Það er ekki slæmt að vera íþróttalið í Tampa Bay þessa dagana enda virðist hvert meistaraliðið á fætur öðru koma þaðan. Nú er Tampa borg meira eiginlega búið að eignast NBA lið líka.

Toronto Raptors, eina kanadíska liðið í NBA-deildinni í körfubolta, hefur tekið þá ákvörðun að spila alla heimaleiki sína á þessu tímabili í Tampa.

Raptors-liðið var tilneytt til að spila heimaleiki sína í Bandaríkjunum vegna sóttvarnarreglna á ferðalögum á milli Bandaríkjanna og Kanada en það var búist við því að liðið myndi snúa heim til Toronto áður en tímabilið kláraðist.

Eins og flestir vita þá vann Tampa Bay Buccaneers Super Bowl í ameríska fótboltanum á dögunum en áður hafði íshokkíliðið Tampa Bay Lightning unnið Stanley bikarinn og hafnarboltaliðið Tampa Bay Rays komist alla leið í úrslitaleikina sem Bandaríkjamaðurinn kallar World Series

„Flórída hefur tekið vel á móti okkur og við erum svo þakklát fyrir gestrisnina í Tampa og í Amalie höllinni. Við búum í borg meistaranna og ætlum að halda í þá hefð og koma með fleiri sigra til nýju vinanna og stuðningsmannanna okkar hér,“ sagði Masai Ujiri, forseti Toronto Raptors, í yfirlýsingu.

„Hjartað okkar er samt heima í Toronto. Við hugsum oft til stuðningsmanna okkar og allra þeirra sem við sökunum þaðan. Við getum ekki beðið eftir því að við hittumst öll á ný,“ bætti Ujiri við.

Hvort sem að breytingin háði liði Toronto Raptors í byrjun þá tapaði liðið átta af fyrstu tíu leikjum sínum. Liðið hefur aftur á móti unnið 10 af 15 leikjum síðan þá og hafa unnið 6 af 11 leikjum sínum í Tampa.

Toronto Raptors varð NBA meistari í fyrsta og eina skiptið árið 2019.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×