Skoðun

Til hamingju með Ráð­gjafar­stofu inn­flytj­enda

Elín Oddný Sigurðardóttir skrifar

Það er mikið fagnaðarefni að loksins sé Ráðgjafarstofa innflytjenda orðin að veruleika. Hávært ákall hefur verið meðal þeirra sem sinna margskonar þjónustu við innflytjendur um að sárlega hafi vantað samræmda og aðgengilega þjónustu á einum stað. Vinstri græn hafa tekið undir þetta ákall og haft það á stefnu sinni að boðið sé upp á heildstæða þjónustu sem veitt er með mannúð að leiðarljósi.

Ráðgjafarstofa innflytjenda er skýrt dæmi um mál þar sem markviss samvinna ríkis og sveitarfélaga ásamt grasrótarsamtökum og fagfólki í málaflokknum skilar árangri. Vorið 2018 var fyrsta heildstæða stefnan í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd samþykkt í borgarstjórn. Sú stefna, sem unnin var undir forystu Vinstri grænna í borginni, fól í sér fjölmargar aðgerðir sem krefjast aukins samstarfs ríkis og sveitarfélaga. Þar var lögð áhersla á að opnuð yrði upplýsingamiðstöð fyrir innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar þessa ákalls samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu Vinstri grænna um að sett verði á fót Ráðgjafarstofa innflytjenda sem veitir sértæka ráðgjöf á einum stað. Nú hefur þessi mikilvæga ákvörðun loksins komið til framvæmda og því ber að fagna.

Það er mikilvægt að hafa ávallt í huga að þeir sem setjast hér að koma úr öllum áttum og hafa margvíslegar ástæður fyrir að setjast að á íslandi. Því getum við ekki litið á innflytjendur sem einsleitan hóp heldur verðum við að skipuleggja alla þjónustu með fjölbreytileika í huga. Ljóst er að ennþá er full þörf fyrir sértæka þjónustu fyrir innflytjendur. Margar augljósar staðreyndir, svo sem mismunum á vinnumarkaði og víðar, tala sínu máli. Þeir sem nýlega hafa sest hér að vita ekki hver réttindi þeirra eru, hvaða þjónusta stendur til boða eða hvert hægt er að sækja hana.

Saman getum við skapað samfélag án aðgreiningar þar sem öll fá þjónustu við hæfi. Með heildstæðri þjónustu og betri upplýsingagjöf má auðvelda nýjum íbúum sín fyrstu skref og er það öllum til heilla. Til hamingju með Ráðgjafarstofu innflytjenda.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Vinstri grænna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×