Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. - Njarðvík 90-68 | Frábær sigur Þórs á andlausum Njarðvíkingum

Karl Jónsson skrifar
Vísir/Vilhelm

Þórsarar unnu Njarðvíkinga örugglega í Dominos-deildinni í dag með 90 stigum gegn 68 þar sem hálfleikstölur voru 74-44. Þetta var í raun ótrúlegur leikur þar sem gestirnir mættu andlega ekki til leiks. Þegar staðan breyttist úr 10-10 í 20-10 fyrir Þór var ljóst í hvað stefndi og þeir grænklæddu afar ólíkir sjálfum sér. Þórsarar fengu nýjan leikmann á dögunum, Ohouo Edi, sem sýndi í dag að hann er enginn aukvisi. Hann býður upp á fjölbreytt vopnabúr í sókninni, fyrsta skrefið hjá honum er gríðarlega sterkt og skrokkurinn þannig gerður að hann ryður vel frá sér í keyrslu upp að körfunni. Þetta gefur Bjarka Ármanni tækifæri til að hvíla lykilmenn betur og í dag sást það t.d. í fyrsta skiptið í miðjum leik að tveir af þessum lykilmönnum sátu utan vallar hvað eftir annað. Kærkomið að fá Edi í róteringuna.

Deildin hefur boðið upp á svona leiki af og til í vetur, þar sem lið mæta andlaus og tapa stórt líkt og Þórsarar gerðu á Egilsstöðum á dögunum en koma svo í næsta leik með endurnýjaða orku og ákefð.

Srdan Stojanovic var stigahæstur Þórsara með 22 stig og hitti kappinn m.a. úr öllum fimm þriggja stiga skotunum sínum. Ivan Alcolada skoraði 20 og tók auk þess 13 fráköst. Dedrick Basile lét ekki sitt eftir liggja og setti 19 stig og sendi 10 stoðsendingar á afar skilvísa samferðamenn sína í Þórsliðinu. Nýi maðurinn Ohouo Edi kom svo með 11 stig og 7 fráköst af bekknum.

Hjá Njarðvík var Antonio Hester atkvæðamestur en aðeins með 12 stig. Hann bætti 13 fráköstum í safnið. Veigar Páll Alexandersson skoraði 10 og átti fína innkomu af bekknum. Logi Gunnarsson setti þrjár þrista úr fimm tilraunum og Rodney Glasgow skoraði 9 stig. Njarðvíkingar söknuðu sárlega framlags frá Mario Matasovic sem var aðeins með 4 stig úr 9 tilraunum.

Þórsarar komu vel stemmdir í leikinn strax í upphafi og spiluðu grimma vörn á Njarðvíkinga. Það breytti því þó ekki að Njarðvíkingar fengu ágætis færi til að skora, en ofan í vildi boltinn ekki og greinilegt að einhver þyngsli voru yfir gestunum. Þegar staðan var 10-10 náðu Þórsarar yfirhöndinni með 10 stigum í röð og litu eiginlega ekkert til baka eftir það. Kyle Johnson kom inn á fyrir Njarðvíkinga í leikhlutanum í fyrsta skiptið í vetur. Staðan 24-14 eftir fyrsta leikhlutann.

Viðstaddir biðu eftir því að Njarðvíkingar vöknuðu, þeir settu 4 stig í röð í upphafi annars leikhluta og minnkuðu muninn í 27-18 en þá komu tveir þristar heimamanna og setti nýi maðurinn Ohouo Edi annan þeirra. Sá er að styrkja liðið heldur betur með fjölhæfni sinni og styrk. Í leikhlutanum var nánast skrúfað fyrir allt leikflæði hjá Njarðvíkingum sem reyndur frekar að hnoðast einn á einn og áttu Þórsarar í fullkomlega fullu tré við þá varnarmegin. Staðan í hálfleik 55-29, 26 stiga munur.

Njarðvíkingar bitu frá sér í upphafi þriðja leikhlutans, keyrðu upp hraðann á meðan Þórsarar hittu illa. Gestirnir voru komnir með skotrétt eftir aðeins 3 mínútur og mátti búast við því að þeir settu heimamenn í vandræði. Þórsarar nýttu hins vegar skotklukkuna afar vel, héldu hraðanum niðri og náðu í raun að slökkva í Njarðvíkingum og þeirra tilraunum til að koma til baka. Staðan eftir þriðja leikhluta var 74-44.

Fjórði leikhlutinn fjaraði einhvern veginn út án þess að nokkuð markvert gerðist. Njarðvíkingar köstuðu hvíta handklæðinu snemma inn enda útséð um meiriháttar endurkomu í þessum leik. Leikhlutinn kláraðist á ungum og efnilegum leikmönnum sem var gaman að fylgjast með og eiga framtíðina fyrir sér. Lokatölur 90-68 í leik sem Njarðvíkingar vilja eflaust gleyma sem fyrst.

Hverjir stóðu upp úr?

Þríeyki þeirra Þórsara, Dedrick, Srdan og Ivan stóðu upp úr í dag í annars mjög baráttuglöðu liði heimamanna. Allir létu til sín taka í vörninni og börðust vel og lögðu grunninn að þessum góða sigri.

Hvað gekk illa?

Njarðvíkingum gekk nánast allt illa í dag. Skotnýting skelfileg og eins og menn væru ekki á staðnum. Það er hægt að velta sér upp úr einhverri tölfræði því til sönnunar en það hefur ekkert upp á sig því það var hugarfarið sem var ekki til staðar frá upphafi. Það er eitthvað sem þeir grænu þurfa að setjast yfir.

Hvað gerist næst?

Á fimmtudag fá Þórsarar nafna sína úr Þorlákshöfn í heimsókn á meðan Njarðvíkingar spila á föstudaginn við ÍR-inga á heimavelli. Eftir þrjá tapleiki í röð þurfa þeir að fara að sýna eitthvað.

„Er eiginlega bara kjaftstopp“

Einar Árni Jóhannsson var niðurdreginn eftir leikinn. „Ég vil biðja stuðningsmenn okkar og allt fólkið sem vinnur á bak við okkur afsökunar á þessari frammistöðu því þetta var ólýsanleg dapurt,“ sagði hann. 

Hann sagði sína menn ekki geta verið þreyttari en aðra og sagði að allir væru þreyttir. 

„Lærdómurinn úr þessum leik er sá að þeir sem eru með hjartað í þessu og berjast, þeir vinna. Þórsurum langaði mikið í þetta og sýndu það. Ég hef ekki skýringu hér og nú á þessu andleysi sem var yfir okkar liði nánast frá fyrstu mínútu,“ sagði Einar. 

„Ég er eiginlega nett kjaftstopp, við erum að koma úr tveimur tapleikjum, margt gott í síðasta leik gegn Stjörnunni en að koma hér í þennan leik og bjóða upp á þessa frammistöðu er náttúrlega bara galið. En kredit á heimamenn sem voru á fullu allan tímann, skutu boltanum vel í fyrri hálfleik, en ég bara hef ekki áhuga á að tala um þá núna, hef bara nægar áhyggjur af mínu liði og okkur sem liðsheild því þetta var ekki boðlegt með fullri virðingu fyrir andstæðingnum,“ sagði Einar Árni.

Bjarki: Edi á eftir að styrkja okkur mikið

Bjarki Ármann Oddsson þjálfari var glaður með árangur sinna manna. „Strákarnir sýndu frábæra baráttu og auðvitað hjálpaði það til að Srdan hitti úr öllum þriggja stiga skotunum sínum og Ivan tók næstum því öll fráköst. Við vorum á tímabili að vinna frákastabaráttuna með einhverjum 15 fráköstum þó það hafa bara endað í 5 fráköstum í lokin, þannig að baráttan var frábær. Við töluðum um það í hálfleik að við værum ekki búnir að vinna neitt það væri nóg eftir og við þyrftum að halda áfram,“ sagði Bjarki. 

Hann sagði að þegar munurinn var kominn í 30 stig var hvíta handklæðinu nánast kastað inn af bekk Njarðvíkinga. 

En hvað segir Bjarki um nýja manninn, Edi? „Hann gefur okkur bara nýja vídd, bæði í varnarleiknum og sóknarleiknum. Hann keyrir meira upp að körfunni en aðrir og er að fatta hversu góður hann getur orðið í þessari deild. Strákarnir eru líka að átta sig á því hversu mikið hann getur bætt okkar leik. Hann er reynslumikill, 33 ára og hefur spilað lengi sem atvinnumaður. Ég hef verið að koma honum inn í þetta í rólegheitunum og hann á bara eftir að styrkja okkur enn meira“, sagði Bjarki að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira