Handbolti

„Frammararnir voru hrikalega flottir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorgrímur Smári Ólafsson lék vel þegar Fram vann Val.
Þorgrímur Smári Ólafsson lék vel þegar Fram vann Val. vísir/bára

Einar Andri Einarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, var virkilega hrifinn af frammistöðu Fram í sigrinum á Val, 26-22, á fimmtudaginn.

Eftir tapið fyrir ÍBV, 19-17, í fyrsta leik sínum eftir hléið langa var allt annað að sjá til Fram í leiknum gegn Fram, sérstaklega í sókninni. Frammarar skoruðu sextán mörk í fyrri hálfleik, einu minna en í öllum leiknum gegn Eyjamönnum.

Einar Andri fékk það verkefni að greina leik Fram í Seinni bylgjunni og var hrifinn af því sem hann sá.

„Það var mjög gaman að sjá Frammarana í þessum leik. Í fyrri hálfleik spiluðu þeir til dæmis innleysingataktík, þar sem miðjumaðurinn leysti inn, og Valsmennirnir náðu ekki að leysa þetta,“ sagði Einar Andri.

„Almennt séð voru Frammararnir hrikalega flottir. Þetta var allt annað en frá því í leiknum gegn ÍBV. Taktíkarnar voru vel útfærðar og gerðar af fullum krafti, ekkert hik. Í Eyjum voru þeir með 22 tapaða bolta en fóru með það niður í tíu sem er virkilega vel gert. Það var greinilega farið vel yfir sóknarleikinn.“

Góð innkoma Þorvaldar

Jóhann Gunnar Einarsson var hrifinn af frammistöðu Þorvaldar Tryggvasonar sem fyllti skarð Ægis Hrafn Jónssonar í vörninni og lék auk þess vel í sókn Fram.

„Þegar maður horfði á uppstillinguna og sá að Ægir var ekki með, lykilvarnarmaður þarna og búinn að binda saman vörnina og ver þrjú til fimm skot í leik, hugsaði maður að þetta gæti orðið vesen,“ sagði Jóhann Gunnar.

„Síðan kemur þessi Þorvaldur Tryggvason sem kom aðeins inn á gegn ÍBV. Hann hefur verið að fylla inn í. Þeir hafa bara verið með Rógva [Dal Christiansen] á línunni og hann skiptir við Ægi dálítið mikið. Hann [Þorvaldur] var bara drullu flottur. Þeir fengu allt öðruvísi vörn. Venjulega bíður Ægir og reynir að verja skot á meðan annar er að vinna í kringum. Þetta virkaði alveg, þeir voru út og suður og hömruðu þá út og suður.“

Næsti leikur Fram er gegn Þór á Akureyri á miðvikudaginn.

Klippa: Seinni bylgjan - Einar Andri greinir Fram

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×