Körfubolti

Helmingur liða í Domino´s enn án heimasigurs eftir fimm umferðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Njarðvíkingurinn Antonio Hester sækir að Pavel Ermolinskij hjá Val í leik liðanna. Bæði lið eru án sigurs á heimavelli en ósigruð á útivelli.
Njarðvíkingurinn Antonio Hester sækir að Pavel Ermolinskij hjá Val í leik liðanna. Bæði lið eru án sigurs á heimavelli en ósigruð á útivelli. Vísir/Hulda Margrét

Sex af tólf liðum í Domino´s deild karla í körfubolta hafa enn ekki fagnað heimasigri þegar fimm umferðir eru búnar af deildinni.

Það er óhætt að segja að heimaliðin hafi átt frekar erfitt uppdráttar í fyrstu umferðunum.

Það eru í raun bara þrjú lið í karladeildinni sem hafa fleiri sigurleiki en tapleiki í heimaleikjum sínum.

Keflavík og Grindavík hafa unnið báða heimaleiki sína og Þorlákshafnar Þórsarar eru búnir að fagna sigri í tveimur af þremur heimaleikjum sínum.

Stjarnan og ÍR hafa jafnmarga sigra og töp á heimavelli og KR hefur unnið einn af þremur heimaleikjum sinum.

Þar með eru upptalin þau lið sem hafa unnið heimaleik í fyrstu fimm leikjum Domino´s deildar karla 2020-21.

Hin sex lið deildarinnar hafa því enn ekki unnið heimaleik í mótinu. Þau hafa bæði spilað þrjá og tvo heimaleiki í fyrstu fimm umferðunum.

Valur, Tindastóll, Þór Akureyri og Höttur hafa öll tapað þremur heimaleikjum af þremur mögulegum en lið Njarðvíkur og Hauka hafa tapað báðum heimaleikjum sínum.

Njarðvíkingar hafa unnið þrjá leiki í fyrstu fimm umferðunum en þeir sigrar hafa komið allir á útivelli. Valur og Tindastóll hafa líka unnið alla útileiki sína til þessa.

Stjarnan og KR eru líka ósigruð á útivelli en sex af tólf liðum deildarinnar hafa ekki tapað útileik til þessa á tímabilinu.

Lið með fleiri sigra en töp á heimavelli í fyrstu fimm umferðunum:

 • 2 sigrar og 0 töp
 • Keflavík
 • Grindavík
 • 2 sigrar og 1 tap
 • Þór Þorlákshöfn
 • 1 sigur og 1 tap
 • Stjarnan
 • ÍR
 • 1 sigur og 2 töp
 • KR
 • 0 sigrar
 • Njarðvík (2 leikir)
 • Haukar (2 leikir)
 • Valur (3 leikir)
 • Tindastóll (3 leikir)
 • Þór Akureyri (3 leikir)
 • Höttur (3 leikir)Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.