Handbolti

Alfreð Gíslason kemur fyrirliða sínum til varnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason og Uwe Gensheimer eru í fararbroddi sem þjálfari og fyrirliði þýska landsliðsins.
Alfreð Gíslason og Uwe Gensheimer eru í fararbroddi sem þjálfari og fyrirliði þýska landsliðsins. Samsett/EPA

Uwe Gensheimer hefur lengi verið í hópi bestu hornamanna heims og því hefur óvænt gagnrýni á hann komið mörgum á óvart.

Þýska handboltalandsliðið náði „bara“ tólfta sæti á HM í Egyptalandi og er ekki meðal þeirra átta þjóða sem eiga ennþá möguleika á heimsmeistaratitlinum. Þetta var fyrsta stórmót Alfreðs Gíslasonar með liðið.

Árangur þýska landsliðsins olli vonbrigðum enda var liðið í fimmta sæti á EM í fyrra og í fjórða sæti á HM fyrir tveimur árum síðan.

Sá sem hefur fengið hvað mesta gagnrýni er fyrirliði liðsins, vinstri hornamaðurinn Uwe Gensheimer.

Alfreð Gíslason kom fyrirliða sínum til varnar.

„Uwe hefur spilað vel hingað til. Hann klikkaði á skotum á móti Úrúgvæ en að öðru leiti þá spilaði hann vel,“ sagði Alfreð Gíslason í viðtali við Kicker á hóteli í Kaíró.

Alfreð ætlar ekki að taka fyrirliðabandið af Uwe Gensheimer.

„Nei alls ekki. Þvert á móti þá hefur hann skilað fyrirliðahlutverkinu mjög vel. Það er enginn í liðinu sem efast um hann,“ sagði Alfreð.

Uwe Gensheimer skoraði 14 mörk úr 21 skoti á mótinu en hann spilaði fimm leiki og í 3 klukkutíma og rúmar 22 mínútur. Gensheimer nýtti 67 prósent skota sinna en klikkaði á eina víti sínu. Fimm af fjórtán mörkum hans komu úr hraðaupphlaupum og fimm komu úr horninu.

Kai Häfner hefur einnig komið fyrirliða sínum til varnar.

„Það er engin ástæða fyrir slíkri gagnrýni. Hann er hefur fullt traust okkar sem fyrirliði og skilar hlutverki sínu frábærlega. Að mínu meti þá er Uwe besti vinstri hornamaður í heimi og ég get ekki séð fyrir mér betri fyrirliða fyrir okkur. Ég skil því ekki þessa gagnrýni,“ sagði Kai Häfner.

Uwe Gensheimer sjálfur hló líka að gagnrýninni en hann endaði sem fimmti markahæsti leikmaður þýska liðsins á heimsmeistaramótinu.

„Ég veit ekki hvort að þetta komi til vegna þess með hvaða félagsliði ég spila. Stundum er mikil öfund og óvild í gangi. Ég hef þá tilfinningu,“ sagði Uwe Gensheimer og kvartaði yfir því að fá ekki nógu mikið af boltum út í hornið.

„Það sem hann sagði um að hann væri ekki að fá nógu mikið af boltum út í vinstri hornið er rétt. Ég talið um það sjálfur,“ sagði Alfreð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×