Umfjöllun: Ísland - Frakkland 26-28 | Naumt tap gegn sexföldum heimsmeisturum

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var kraftmikill í sóknarleik Íslands.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var kraftmikill í sóknarleik Íslands. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Ísland varð að lokum að sætta sig við naumt tap gegn sexföldum heimsmeisturum Frakka, 28-26. Þar með er vonin úti um að Ísland fari í 8-liða úrslit HM í handbolta í Egyptalandi.

Ísland var tveimur mörkum yfir um miðjan seinni hálfleik og átti í fullu tré við meistarakandídatana sem unnið hafa alla sína leiki til þessa á HM, þar á meðal Norðmenn.

Allt annað en gegn Sviss

Frábær vörn, stórleikur Viktors Gísla Hallgrímssonar í markinu, fjöldi hraðaupphlaupa og góður sóknarleikur lengst af gerði að verkum að Ísland leit út eins og lið sem á heima í hópi þeirra átta bestu í heimi, líkt og markmið landsliðsþjálfarans er. 

Frammistaðan var allt önnur en í töpunum gegn Portúgal og sérstaklega Sviss – töpunum sem gera að verkum að ævintýrinu er formlega lokið hjá Íslandi á þessu stórmóti.

Frakkar eru í góðri stöðu í baráttunni um að komast í 8-liða úrslitin, með átta stig á toppi riðilsins. Þeir búa líka að því að hafa unnið Norðmenn með fjórum mörkum. Ísland getur í besta falli náð 4. sæti úr þessu, nema að Noregur tapi gegn Alsír í kvöld en þá gæti Ísland mögulega náð 3. sæti með sigri gegn Noregi í lokaumferðinni á sunnudaginn.

Bjarki Már Elísson var sjóðheitur og skoraði sjö mörk í fyrri hálfleik.EPA-EFE/Petr David Josek

Ísland skoraði fyrsta mark leiksins í dag úr hraðaupphlaupi og gaf þar með tóninn fyrir góðan leik. Hraðaupphlaupsmörkin urðu alls sex í fyrri hálfleik eftir að svo virtist í öðrum leikjum á HM sem þau hefðu farið á hilluna með handboltaskóm Guðjóns Vals Sigurðssonar.

Elliði bjó til hraðaupphlaup

Frakkar höfðu þó frumkvæðið í fyrri hálfleik en munurinn varð mestur þrjú mörk þegar Frakkar komust í 12-9. Elliði Snær Viðarsson var grimmur og vann boltann í tvígang í vörninni, sem skilaði sér í hraðaupphlaupum, og Ísland minnkaði muninn í 13-12 en Frakkar voru áfram yfir þegar fyrri hálfleik lauk, 16-14. Bjarki Már Elísson hafði þá skorað sjö mörk og hinn hornamaðurinn, Sigvaldi Björn Guðjónsson, úr sínum þremur skotum.

Ludovic Fabregas verst Ómari Inga Magnússyni.EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Eftir að skyttur Íslands höfðu haft hægt um sig hóf Viggó Kristjánsson seinni hálfleik af hreint út sagt ótrúlegum krafti. Hann skoraði fyrstu sex mörkin sín, úr jafnmögum skotum, á rétt rúmum tíu mínútum, sum hver afar lagleg.

Viktor og vörnin frábær þrátt fyrir brotthvarf Alexanders

Ísland komst tveimur mörkum yfir, 21-19 og 22-20, og gríðarlegur baráttuandi var sjáanlegur í varnarleik liðsins gegn Dika Mem og öðrum af hinum ógnarsterku andstæðingum. Í kvöld þreytti vörnin, sem verið hefur svo áreiðanleg allt mótið, sitt langstærsta próf og stóðst það. Það gerði hún þrátt fyrir að hafa misst Alexander Petersson út.

Miklu munaði einnig um magnaða innkomu Viktors Gísla Hallgrímssonar sem eftir að hafa verið utan hóps í síðustu leikjum kom inn á þegar leið á fyrri hálfleik og varði alls tíu skot í leiknum.

Guðmundur Guðmundsson fórnar höndum. Hann var mjög ósáttur með að markverði Frakka skyldi ekki vikið af velli með rautt spjald á 57. mínútu.EPA-EFE/Petr David Josek

Frakkar náðu hins vegar að jafna metin og komast yfir þegar íslenski sóknarleikurinn hökti, og Ísland náði ekki að skora á átta mínútna kafla. Elvar Örn Jónsson vann boltann og gat komið Íslandi yfir úr hraðaupphlaupi á 45. mínútu, en skot hans var varið. 

Elvar var fjarri sínu besta í sóknarleiknum og nýtti aðeins eitt af sjö skotum sínum. Kári Kristján Kristjánsson lék sinn fyrsta leik á mótinu og fór einnig illa með færin sín á þessum erfiða kafla í seinni hálfleik.

Markvörður Frakka slapp við rautt spjald

Frakkar náðu þó ekki miklu forskoti vegna Viktors og varnarinnar. Ólafur Guðmundsson braut loks ísinn með góðu marki á 49. mínútu og jafnaði metin í 23-23. Sóknarleikur Íslands gekk hins vegar áfram illa það sem eftir lifði leiks, og markvörðurinn Yann Genty reyndist liðinu erfiður eftir að hafa komið inn á.

Genty hefði þó líklega átt að fá rautt spjald þegar hann fór út úr vítateignum til að stöðva hraðaupphlaup Íslands þegar fáeinar mínútur voru eftir. Hann snerti Bjarka Má Elísson sem náði ekki til boltans en hefði getað minnkað muninn í eitt mark. Frakkar héldu út og unnu tveggja marka sigur.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.