Handbolti

„Frakkar eru enn á toppnum“

Sindri Sverrisson skrifar
Elvar Örn Jónsson með boltann í leiknum við Sviss á miðvikudag þar sem Ísland varð að sætta sig við tveggja marka tap.
Elvar Örn Jónsson með boltann í leiknum við Sviss á miðvikudag þar sem Ísland varð að sætta sig við tveggja marka tap. EPA-EFE/Petr Josek

„Mér finnst við eiga séns í þá og við mætum auðvitað klárir og höfum alltaf trú á sjálfum okkur,“ segir Elvar Örn Jónsson um slaginn í dag við sigursælasta lið HM frá upphafi, Frakka.

Frakkland hefur orðið heimsmeistari í handbolta sex sinnum og þar af fjórum sinnum á síðustu sex heimsmeistaramótum. Þrátt fyrir miklar breytingar á liðinu er svo sannarlega ljóst að við ramman reip verður að draga fyrir strákana okkar í dag kl. 17:

„Frakkarnir eru með frábært lið og frábæra leikmenn í öllum stöðum, með gríðarlega mikla líkamsbyggingu. Það verður bara skemmtilegt verkefni að mæta þeim,“ segir Elvar við Vísi, í gegnum tölvu á hóteli landsliðsins í gær.

Klippa: Elvar Örn um Frakka

„Það komu kynslóðaskipti hjá þeim en þeir eru samt með frábært lið. Þeir missa Thierry Omeyer sem var besti markmaður í heimi en svo koma samt bara frábærir markmenn í staðinn og þannig er það í öllum stöðum. Þeir eiga leikmenn í bestu liðum í heimi og Frakkar eru enn á toppnum að mínu mati,“ segir Elvar.

Eftir afar svekkjandi tap gegn Sviss, 20-18, á miðvikudaginn þyrstir Elvar og félaga í að svara fyrir sig:

„Við erum hundsvekktir að hafa tapað þessum leik og viljum svara með góðum leik gegn Frökkum, og gefa allt í þetta. Við höfum fulla trú á að við getum unnið en þá þurfum við líka toppleik.“

Sárt að missa Alexander en skiljum það

Ísland verður hins vegar án Alexander Petersson í dag en hann er farinn heim til Þýskalands þar sem hann gengur í raðir Flensburg eftir níu ár hjá Rhein-Neckar Löwen. Skarð Alexanders er vandfyllt:

„Alex er frábær leikmaður og mjög mikilvægur í varnarleiknum. Hann kemur með ákveðna reynslu í þetta lið og er bæði frábær leikmaður og liðsfélagi. Það er sárt að missa hann en hann fór út af persónulegum ástæðum og við skiljum það allir, og höldum áfram,“ segir Elvar.


Tengdar fréttir

Alexander farinn heim frá Egyptalandi

Alexander Petersson leikur ekki meira með Íslandi á HM í Egyptalandi. Hann er farinn aftur til Þýskalands af persónulegum ástæðum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.