Körfubolti

NBA dagsins: Steph Curry setti niður stóra skotið en ekki Lebron James

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephen Curry í vörn gegn LeBron James í sigri Golden State Warriors á  Los Angeles Lakers í nótt.
Stephen Curry í vörn gegn LeBron James í sigri Golden State Warriors á  Los Angeles Lakers í nótt. AP/Jae C. Hong

Golden State Warriors og Brooklyn Nets sendu skýr skilaboð með góðum sigrum í NBA-deildinni í nótt.

Stephen Curry og félagar í Golden State Warriors unnu athyglisverðan endurkomusigur á NBA-meisturum Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Golden State Warriors var fjórtán stigum undir í fjórða leikhlutanum en kom til baka og tryggði sér á endanum 115-113 sigur með því að vinna síðustu sex mínútur leiksins 18-7.

Stephen Curry setti niður risastóran þrist mínútu fyrir leikslok og kom Warriors í 115-110. Lakers menn minnkuðu muninn í tvö stig með þremur vítaskotum og áttu síðan lokasókn leiksins.

LeBron James fékk þar tækifæri til að tryggja liðinu sigurinn en þriggja stiga skot hans geigaði.

Warriors liðið byrjaði tímabilið mjög illa en það hefur verið allt annað að sjá til þess að undanförnu eins og sannaðist í þessum leik.

James Harden og Kevin Durant skoruðu báðir yfir þrjátíu stig í sigri Brooklyn Nets á Milwaukee Bucks í uppgjöri tveggja sterkra liða í Austurdeildinni. James Harden var með 34 stig og 12 stoðsendingar og Kevin Durant var með 30 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar og sigurkörfuna í 125-123 sigri.

Nets-liðið hefur þar með unnið tvo fyrstu leiki sína eftir að liðið fékk James Harden frá Houston Rockets en hann er með 33 stig og 13 stoðsendingar að meðaltali í þessum leikjum.

Toronto Raptors er að vakna til lífsins eftir slaka byrjun en 116-93 sigur á Dallas Mavericks í nótt var þriðji sigur liðsins í röð en Raptors menn héldu Luka Doncic í fimmtán stigum í leiknum.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir og viðtöl úr sigri Golden State Warriors á Los Angeles Lakers, úr sigri Brooklyn Nets á Milwaukee Bucks og úr sigri Toronto Raptors á Dallas Mavericks. Þá fylgja eins og vanalega flottustu tilþrifin úr leikjum NBA-deildarinnar í nótt.

Klippa: NBA dagsins (frá 18. janúar 2021)
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×