Innlent

Smithlutfall í sumum flugvélum allt að tíu prósent

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, telur nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða á landamærunum vegna Covid-19.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, telur nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða á landamærunum vegna Covid-19. Vísir/Egill

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur lagt það til við Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra, að allir þeir sem hingað ferðast þurfi að framvísa neikvæðu prófi vegna kórónuveirunnar áður en þeir leggja af stað hingað til lands.

Prófið má ekki vera meira en 48 klukkustunda gamalt. Farþegarnir þurfa einnig að framvísa vottorði um prófið við komuna hingað til lands. Þá þurfa farþegar enn að velja á milli tvöfaldrar skimunar með fimm daga sóttkví á milli eða fjórtán daga sóttkvíar líkt og verið hefur.

Þórólfur hafði áður lagt til við ráðherra að val um fjórtán daga sóttkví yrði afnumið og til vara, ef það væri ekki hægt, að skylda þá sem velja slíka sóttkví til að dvelja í farsóttarhúsi á meðan á sóttkví stendur.

Fram kom í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag að heilbrigðisráðuneytið teldi ekki lagastoð fyrir þessum úrræðum. Því hefði hann lagt til leiðina um vottorðið. Sú tillaga er nú til skoðunar hjá ráðuneytinu.

Fjölmargir hafa greinst með virkt smit á landamærunum og sagði Þórólfur það vekja upp áhyggjur. Þótt aðgerðir á landamærum hefðu skilað árangri þá þyrfti að grípa til frekari aðgerða vegna útbreiðslu faraldursins erlendis. Þá vísaði Þórólfur einnig í mikla útbreiðslu hins svokallaða breska afbrigðis sem talið er mun meira smitandi en aðrir stofnar veirunnar.

Þórólfur sagði dæmi um að hlutfall smitaðra í einstaka flugvélum væri allt upp í tíu prósent. Hann sagði að fyrir nokkrum vikum hefði hlutfall smitaðra á landamærum verið langt undir einu prósenti á heildina litið en nú væri það nokkuð yfir þeirri tölu. Því þyrfti að gera allt sem hægt væri til að koma í veg fyrir að smit kæmist inn í landið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.