Handbolti

„Hann kveikir í öllu“

Sindri Sverrisson skrifar
Elliði Snær Viðarsson kemur boltanum í mark Portúgals í sigrinum góða á sunnudaginn.
Elliði Snær Viðarsson kemur boltanum í mark Portúgals í sigrinum góða á sunnudaginn. Vísir/Hulda Margrét

Innkoma línumannsins Elliða Snæs Viðarssonar vakti athygli á Ásvöllum í hans fyrsta mótsleik fyrir íslenska landsliðið, í stórsigrinum gegn Portúgal í undankeppni EM. Elliði er í 20 manna landsliðshópnum sem mættur er á HM í Egyptalandi þar sem Ísland hefur leik á morgun.

„Hann skilaði sínu á báðum endum. Er hann ekki ákveðinn jóker inn í þetta lið?“ spurði Henry Birgir Gunnarsson, stjórnandi Seinni bylgjunnar, í þættinum sem sýndur var á Stöð 2 Sport í fyrrakvöld. Þjálfarinn Einar Andri Einarsson tók við boltanum:

„Elliði er stórkostlegur. Ég var svo heppinn að hafa hann hjá mér í U21-landsliðinu þar sem hann spilaði einmitt þennan varnarleik. Þessi drengur er ótrúlegur karakter. Hann kveikir í öllu, hvar sem hann er, leggur sig allan fram og er líka bara að verða frábær leikmaður.

Hann skipti um lið í lok sumars, fór óvænt til Guðjóns Vals hjá Gummersbach, og er búinn að standa sig frábærlega þar. Skora mikið af mörkum. Hann er aukavarnarmaður, gæi sem kveikir neista, gleði og stemningu, og er bara frábær,“ sagði Einar Andri.

Frábært að hafa sem flesta Eyjamenn

Ágúst Jóhannsson er ekki síður spenntur fyrir Eyjamanninum en benti á að nú væri hann mættur á sitt fyrsta stórmót, stærra svið en hann hefði nokkru sinni spilað á:

„Hann kom virkilega öflugur inn í þetta gegn Portúgal og ekki að sjá að hann væri að spila sinn fyrsta leik. Svo er þetta Eyjamaður og lætin og orkan í þessum mönnum er bara á einhverju öðru „leveli“. Það er bara frábært að hafa sem flesta Eyjamenn í þessu.

Þetta er mjög spennandi leikmaður og hann á klárlega eftir að fá sénsinn þarna úti. En þetta er svolítið annað þegar þú ert mættur á hitt sviðið, en ég hef fulla trú á þessum strák. Hann mun klárlega fá einhver tækifæri og nýta þau vel,“ sagði Ágúst.

Klippa: Seinni bylgjan: Umræða um Elliða Snæ

Tengdar fréttir

(Líf)línumaðurinn frá Eyjum

Elliði Snær Viðarsson lék sinn fyrsta keppnisleik með íslenska handboltalandsliðinu þegar það vann níu marka sigur á Portúgal, 32-23, í undankeppni EM í fyrradag.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.