Skoðun

Hvernig getur þú gert hverfið þitt skemmti­legra?

Eiríkur Búi Halldórsson skrifar

20. janúar er stór dagur. Já, við erum að hugsa um það sama. Þetta er síðasti dagur hugmyndasöfnunarinnar fyrir Hverfið mitt hjá Reykjavíkurborg.

Hverfið mitt var sett á fót til að gefa íbúum í Reykjavík færi á að taka á lýðræðislegan hátt þátt í að móta hverfin sín. Eftir að verkefnið hófst hefur það vakið athygli bæði hérlendis og erlendis fyrir þá nýstárlegu leið sem farin er til að gefa íbúum hverfanna tækifæri til að koma að ákvarðanatöku í sínu nærsamfélagi.

Verkefnið hefur gefist vel og á þeim níu árum sem það hefur verið í gangi hafa 787 hugmyndir orðið að veruleika í öllum hverfum Reykjavíkurborgar. Þessar 787 hugmyndir hafa komið frá íbúum borgarinnar og verið kosnar til framkvæmda af íbúunum.

Verkefnið snýst um að íbúar setja inn hugmyndir sem eru svo útfærðar af sérfræðingum Reykjavíkurborgar. Að því loknu er efnt til kosninga þar sem íbúar í hverfum borgarinnar geta valið hvaða hugmyndir þeir vilja að verði framkvæmdar. Með þessu móti geta íbúar Reykjavíkur með beinum hætti haft áhrif á mótun síns hverfis.

Íbúar hverfanna vita oft betur en stjórnmálafólk eða stjórnsýsla borgarinnar hvað gæti gert hverfið þeirra enn betra. Það hefur sýnt sig að þegar borgarbúar fá að hafa áhrif á nærumhverfi sitt verða hverfin betri og þegar litið er um öxl þá eru ótal skemmtileg verkefni sem hafa sannarlega sett svip sinn á hverfin í Reykjavík.

  • Í Árbæinn er kominn kaldur pottur í Árbæjarlaugina.
  • Í Breiðholtinu var sett upp hreysti- og klifursvæði nálægt Breiðholtslaug.
  • Í Grafarholti og Úlfarsárdal er kominn mini-golfvöllur í Leirdal.
  • Í Grafarvoginn er kominn ærslabelgur við Gufunesbæ.
  • Í Háaleiti og Bústöðum var sett upp útiæfingasvæði við Víkingsheimilið.
  • Í Hlíðunum var reistur klifursteinn á Klambratúni.
  • Á Kjalarnesi var sett upp aparóla í Grundarhverfi.
  • Í Laugardalinn er kominn frisbígolfvöllur.
  • Í Miðborginni var bekkjum fjölgað og bætt við gróður í Hljómskálagarðinum.
  • Í Vesturbænum var sett upp há róla við Ægissíðuna.

Hugmyndirnar eiga ekki að snúast um að laga eitthvað gamalt heldur skapa eitthvað nýtt. Hvaða hugmynd vilt þú að verði að veruleika í þínu hverfi í þetta sinn?

Sendu inn þína hugmynd á Hverfidmitt.is, segðu nágrönnum þínum frá hugmyndinni og deildu henni með íbúum hverfisins. Þín hugmynd gæti verið kosin og orðið að veruleika. Þú hefur til miðnættis þann 20. janúar næstkomandi.

Höfundur er verkefnisstjóri á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×