Körfubolti

Curry rauðglóandi og skoraði 62 stig í sigri Golden State

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Damion Lee þurfti að kæla Stephen Curry niður eftir leikinn gegn Portland Trail Blazers.
Damion Lee þurfti að kæla Stephen Curry niður eftir leikinn gegn Portland Trail Blazers. getty/Ezra Shaw

Stephen Curry fór hamförum og skoraði 62 stig þegar Golden State Warriors sigraði Portland Trail Blazers, 137-122, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Curry hitti úr átján af 31 skoti sem hann tók í leiknum, þar af átta af sextán þriggja stiga skotum. Þá skoraði hann átján stig af vítalínunni. Þetta er það mesta sem Curry hefur skorað í leik á ferlinum en gamla metið hans voru 54 stig.

Curry er jafnframt fyrsti leikmaðurinn síðan Kobe Bryant í desember 2005 til að skora 62 stig á aðeins 36 mínútum eða minna í leik. Þá er Curry fyrsti leikmaður Golden State sem skorar 62 stig eða meira í leik í 47 ár, eða síðan Rick Barry skoraði 64 stig í leik 1974.

Los Angeles Lakers vann sinn þriðja leik í röð þegar liðið bar sigurorð af Memphis Grizzlies á útivelli, 94-108. LeBron James skoraði 22 stig, tók þrettán fráköst og gaf átta stoðsendingar fyrir Lakers sem hefur unnið alla þrjá útileiki sína á tímabilinu.

Hitt liðið í Los Angeles, Clippers, vann einnig góðan útisigur á Phoenix Suns, 107-112. Paul George fór mikinn í liði Clippers og skoraði 39 stig. Devin Booker skoraði 25 stig fyrir Phoenix.

Clippers, Phoenix og Lakers eru með besta árangurinn í Vesturdeildinni; fimm sigra og tvö töp.

Brooklyn Nets tapaði öðrum leiknum í röð þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Washington Wizards, 122-123.

Bradley Beal hélt uppteknum hætti frá fyrstu leikjum tímabilsins og skoraði 27 stig og tók tíu fráköst í liði Washington. Russell Westbrook skoraði 24 stig og gaf tíu stoðsendingar. Þrjátíu stig frá Kyrie Irving og 28 stig frá Kevin Durant dugðu Brooklyn skammt í leiknum.

Úrslitin í nótt

  • Golden State 137-122 Portland
  • Memphis 94-108 LA Lakers
  • Phoenix 107-112 LA Clippers
  • Brooklyn 122-123 Washington
  • Detroit 120-122 Boston
  • Minnesota 109-124 Denver
  • San Antonio 109-130 Utah
  • Chicago 118-108 Dallas
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×