Innlent

Íslenskir víkingar fara í víking

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Hér stendur Gunnar Víking Ólafsson í stafni.
Hér stendur Gunnar Víking Ólafsson í stafni.
Að minnsta kosti átta víkingafélög eru í landinu en í síðustu viku var eitt slíkt stofnað á Reykjanesi. Gunnar Víking Ólafsson, formaður Víkingafélagsins Einherja í Reykjavík, segir að hátt í þrjú hundruð manns séu í þessum sex félögum.

Gunnar segir ennfremur að hátíð Einherja, Ingólfshátíðin, verði sífellt stærri. Segir hann að á hátíðina komi siglandi alla leið frá Bandaríkjunum víkingar á knörrinum Leif Ericson.

Eins segir Gunnar ekki loku fyrir það skotið að norskir víkingar komi hér við á drekanum Haraldi Hárfagra, sem er stærsti knörr í heimi, á næstu Ingólfshátið í júlí á næsta ári.

Ekki situr Gunnar Víking auðum höndum á milli Ingólfshátíða því í september mun hann fara með hlutverk Haralds Harðráða Sigurðssonar Noregskonungs sem leiddi fjölmennan her gegn Englendingum í orrustunni í Stafnfurðubryggju eða Stamford Bridge árið 1066. Gunnar Víking ber engan kviðboga fyrir því þó örlög Noregskonungs hafi verið að fá ör í hálsinn í orrustu þessari.

„Nei, ég er bara að reyna að létta mig svolítið því ég verð borinn þarna af velli og ég er um einn og níutíu svo það er sjálfsagt að létta undir með fólkinu," segir víkingurinn kankvís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×