Erlent

Ísbirnir reglulega felldir á Svalbarða

Piltarnir fjórir sem sluppu lifandi frá grimmilegri árás hvítabjarnar á Svalbarða í gær þurftu allir að gangast undir skurðaðgerð vegna áverka á höfði. Um 3000 birnir halda til á Svalbarða og hafa að meðaltali þrír á ári verið felldir þegar fólki stafar hætta af þeim.

Þrettán bresk ungmenni voru stödd í tjaldbúðum á Svalbarða þegar ísbjörn réðst á eitt tjaldið í gærmorgun. Þrír voru í tjaldinu, þar á meðal sautján ára piltur, Horatio Chapple, sem hugði á nám í læknisfræði, björninn náði að rífa hann á hol og drepa.

Samkvæmt Sky fréttastofunni komu tveir af fararstjórunum þá að, björninn réðist á þá en annar þeirra náði að komast undan, sækja skotvopn og felldi síðan dýrið. Allir fjórir sem lifðu árásina af voru fluttir á spítala í Tromsö með alvarlega höfuðáverka. Þeir eru í stöðugu en alvarlegu ástandi.

Jane Owen, sendiherra Bretlands í Noregi, sagði það hafa slegið sig hversu sterkir eftirlifendurnir voru, þrátt fyrir að vera slasaðir. „Þeir höfðu allir samskipti við mig, réttu upp þumalinn og sögðu: „Við komumst í gegnum þetta, við náum okkur." Ástand þeirra er alvarlegt en stöðugt og þeir hafa fengið mjög góða meðferð hérna. Þeir eru allir mjög hugrakkir."

Um 2400 manns búa á Svalbarða og 3000 hvítabirnir. Sextán ár eru síðan hvítabjörn drap tvær manneskjur í tveimur aðskildum árásum, að sögn Magnus Andersen, vísindamanns hjá norsku Heimskautastofnuninni sem AP fréttastofan talaði við. Hann segir að á árunum 1993 til 2004 hafi þrjú dýr verið felld á ári að meðaltali þegar þau komust í návígi við fólk. Árásin í gær sé hins vegar sú alvarlegasta í manna minnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×