Sjá markaðinn!
Hvar fjallað er um heilsugæsluna
Þegar forsíðufréttinni sleppti var vísað inn í blaðið, og hvar skyldi ítarefnið hafa verið að finna annars staðar en í blaðhlutanum sem fjallar um viðskipti. Ekki gagnrýni ég þetta enda fullkomlega rökrétt! Ríkisstjórnin er að koma því þannig fyrir, að vilji menn fræðast um áform hennar varðandi heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, þá verði vegvísirinn sá hinn sami og í umræddri frétt: Sjá Markað. Í tengslum við þessar fréttir er síðan rætt við bisnismenn á hvítum sloppum, sem eru að hasla sér völl á þessu sviði, og hafa reyndar lengi reynt, en virðast nú ætla að hafa árangur af erfiði sínu. Að vísu þarf hér að hafa einn fyrirvara á og hann er mikilvægur. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra vill ekki að hægt verði að greiða arð út úr einkarekinni heilsugæslu sem fjármögnuð er með almannafé. Þetta er að sjálfsögðu stórmál því fjárfestar og þar með talið lífeyrissjóðir – hugsa nú gott til glóðarinnar að hagnast á heilsuleysi fólks.
Feitir bitar og magrir
Eftir stendur að heilbrigðisráðherrann vill innleiða hér kennisetningu Miltons Friedmans um að peningar fylgi sjúklingi/nemanda og keppi síðan heilbrigðisstofnanir og skólar um hvern bita. Að sjálfsögðu munu útsjónarsamir bisnislæknar fljótlega koma auga á hverjir eru feitir bitar og hverjir magrir. Tvennt vekur sérstaka athygli mína í þessum fréttaflutningi. Í fyrsta lagi að Friedmanskenningin á að ná til allra heilsugæslustöðva, ekki bara einkarekinna. Hvers vegna er þá verið að einkavæða? Augljóst er að útboðið fer fram bara einu sinni en síðan á samkeppnin, sem gumað er af, að verða að hætti Friedmans. Hverjum er verið að þjóna? Augljóslega nýjum rekstraraðilum. Þetta er hins vegar ekki í þágu skattgreiðenda þegar til lengri tíma er litið og ekki verður þetta til að auðvelda skipulagningu þjónustunnar sem verður fyrir vikið óhöndugra verkefni. Eitt nýlegt dæmi um hvernig skipulagsvaldið færist til með einkavæðingu er tilboð fyrir offitusjúklinga að fá allra sinna meina bót í Klínikkinni sem er hagnaðarrekin heilbrigðisstofnun, fjármögnuð af skattgreiðendum.
Ekkifréttir og þjóðarvilji
Hitt sem vekur athygli eru þó engar fréttir í sjálfu sér. Það er þegar verðandi rekstraraðilar fullyrða að „einkastöðvar leysi vanda heilsugæslunnar“ en bæta því svo við að fyrirkomulagið gangi því aðeins upp að til komi „meira fé í heilsugæsluna“. Er þetta ekki mergurinn málsins? Það þarf að hlúa betur að heilsugæslunni með auknu fjárframlagi frá okkur skattgreiðendum. Ég fullyrði að almennt vilji fólk forgangsraða skattframlagi sínu í þá veru enda hefur margoft komið fram að Íslendingar vilja almennt borga með sköttum sínum fyrir gott heilbrigðiskerfi og að það kerfi sé ekki aðeins rekið á fjárhagslega ábyrgð okkar heldur einnig á okkar vegum og í okkar umboði. Staðreyndin er sú að eftir efnahagshrunið, var skorið inn að beini á Landspítalanum og öðrum opinberum heilbrigðisstofnunum og þá ekki síst í heilsugæslunni. Sjálfstætt starfandi sérfræðingar komu hins vegar betur undan hruninu. Þegar opinbera þjónustan á síðan í vök að verjast, koma þeir nú askvaðandi og segja að augljóst sé að opinbera kerfið anni ekki eftirspurn og standi sig ekki, því verði að gefa boltann á þá en að sjálfsögðu með ríkulegri meðgjöf. Sanngjarnt? Varla.
Einkareksturinn allur ríkisrekinn!
Aldrei hef ég amast við því að til staðar séu sjálfstætt starfandi læknar fjármagnaðir af almannafé. Gleymum því aldrei að peningarnir til „einkarekstrarmanna“ koma allir frá okkur skattgreiðendum. En það sem við sjáum vera að þróast núna er hins vegar allt annarrar gerðar en við höfum kynnst til þessa og mun, ef ekki verður að gert, leiða til þess að um heilbrigðiskerfið allt verði fjallað á markaðssíðum blaðanna eins og nú er byrjað að örla á. Ég heiti á okkur öll að láta þetta aldrei henda.
Þessi grein birtist upphaflega í Fréttablaðinu.
Skoðun

Allt mun fara vel
Bjarni Karlsson skrifar

Normið á ekki síðasta orðið
Katrín Íris Sigurðardóttir skrifar

Ég er eins og ég er, hvernig á ég að vera eitthvað annað?
Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir skrifar

Við lifum á tíma fasisma
Una Margrét Jónsdóttir skrifar

Örvæntingarfullir bíleigendur í frumskógi bílastæðagjalda
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Hinir miklu lýðræðissinnar
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Kolefnishlutleysi eftir 15 ár?
Hrafnhildur Bragadóttir,Birna Sigrún Hallsdóttir skrifar

Gleði eða ógleði?
Haraldur Hrafn Guðmundsson skrifar

Tískuorð eða sjálfsögð réttindi?
Vigdís Ásgeirsdóttir skrifar

Ráðherrann og illkvittnu einkaaðilarnir
Freyr Ólafsson skrifar

Áttatíu ár frá Hírósíma og Nagasakí
Snæbjörn Guðmundsson skrifar

Er einhver hissa á fúskinu?
Magnús Guðmundsson skrifar

Þegar hæstaréttarlögmenn kynda undir mismunun og kerfisbundnu ofbeldi
Sigríður Svanborgardóttir skrifar

Réttmætar áhyggjur eða ósanngjarnar alhæfingar?
Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

„Þótt náttúran sé lamin með lurk!“
Sigurjón Þórðarson skrifar

Ekkert ævintýri fyrir mongólsku hestana
María Lilja Tryggvadóttir skrifar

Nám í skugga óöryggis
Sigurður Árni Reynisson skrifar

Tæknin á ekki að nota okkur
Anna Laufey Stefánsdóttir skrifar

Ytra mat í skólum og hvað svo?
Rakel Linda Kristjánsdóttir skrifar

Stjórnun, hönnun og framkvæmd öryggisráðstafana í Reynisfjöru
Magnús Rannver Rafnsson skrifar

Sorglegur uppgjafar doði varðandi áframhaldandi stríðin í dag
Matthildur Björnsdóttir skrifar

Tóbakslaust Ísland! - Með hjálp stefnu um skaðaminnkun
Bjarni Freyr Guðmundsson skrifar

Meðsek um þjóðarmorð vegna aðgerðaleysis?
Pétur Heimisson skrifar

Tími ábyrgðar í útlendingamálum – ekki uppgjafar
Friðþjófur Helgi Karlsson skrifar

Takk starfsfólk og forysta ÁTVR
Siv Friðleifsdóttir skrifar

Þjóðarmorðið í Palestínu
Arnar Eggert Thoroddsen skrifar

Eldra fólk, þolendum ofbeldis oft ekki trúað
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Tölfræði og raunveruleikinn
Jón Frímann Jónsson skrifar

Umgengnistálmanir – brot á réttindum barna
Einar Hugi Bjarnason skrifar

Frá dulúð til daglegs lífs: Hvernig nýjasta gervigreindin vinnur með þér – og gerir þig klárari
Sigvaldi Einarsson skrifar