Innlent

ESB horfir til Íslands í samkeppnismálum

Neelie Kroes ásamt Björgvin G. Sigurðssyni.
Neelie Kroes ásamt Björgvin G. Sigurðssyni.

Framkvæmdastjóri samkeppnismála hjá Evrópusambandinu segir ESB horfa til Íslands þegar kemur að samkeppnismálum. Hún segir Ísland hafa margt fram að færa í þessum efnum.

Neelie Kroes hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra samkeppnismála hjá Evrópusambandinu síðan 2004, en hún var áður utanríkisráðherra og samgönguráðherra í hollensku ríkisstjórninni. Skipun Kroes vakti nokkrar deilur á sínum tíma því margir vildu meina að hún væri of tengd viðskiptalífinu til að geta sinnt starfinu.

En hún hefur látið til sín taka og eitt hennar fyrsta verk var að höfða málsókn gegn tölvurisanum Microsoft fyrir brot á samkeppnislögum. Hefur hún hlotið viðurnefnið ungfrú Microsoft fyrir vikið, en þess má geta að árið 1996 veitti hún Bill Gates, forstjóra Microsoft, heiðursdoktorsnafnbót fyrir hönd Nijenrode háskólans í Hollandi. Og undanfarin tvö ár hefur hún prýtt lista Forbes tímaritsins yfir 100 valdamestu konur heims.

Kroes ávarpaði ráðstefnu um bótarétt vegna samkeppnislagabrota sem viðskiptaráðuneytið og Samkeppniseftirlitið stóðu fyrir á Hilton hóteli í morgun. Þar fjallaði hún um drög að nýjum samkeppnislögum sem hafa verið í undirbúningi innan ESB um nokkurt skeið. Hún segir að í þeirri vinnu hafi vinnuhópurinn horft til Íslands sem búi við mjög gagnsætt og skilvirkt samkeppnisumhverfi. Að því leyti geti Íslendingar miðlað miklu til ESB.

Kroes tilgreindi sérstaklega mál olíufélaganna sem þykir sérstakt að því leyti að þar hafi einstaklingur tekið sig til og barist fyrir því sem hann taldi sig eiga rétt á.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×