Innlent

Sæmundur fer líklega á morgun

Bandarísk stjórnvöld hafa hvatt íslensk stjórnvöld til þess að draga til baka boðið til bandaríska skákmannsins Bobbys Fischers um dvalarleyfi á Íslandi. Sæmundur Pálsson leggur hugsanlega af stað frá Íslandi á morgun til að sækja Fischer. Í Bandaríkjunum vofir yfir Bobby Fischer fangelsisvist þar sem hann rauf að mati Bandaríkjamanna viðskiptabann við Júgóslavíu þegar hann tefldi þar árið 1992. Eftir að íslensk stjórnvöld ákváðu að bjóða honum dvalarleyfi áréttuðu yfirvöld í Washington á blaðamannafundi á föstudag að Bobby Fischer væri eftirlýstur. Er ekki að sjá að framsalskrafa sé útilokuð, komi hann hingað til lands, og nú hefur komið í ljós að utanríkisráðuneytinu íslenska barst orðsending á föstudaginn síðastliðinn þar sem bandarísk stjórnvöld hvöttu þau íslensku til að draga boð til Bobbys Fischers um dvarlarleyfi hér á landi til baka. Þetta staðfestir Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra. Orðsendingin barst í gegnum sendiráð Bandaríkjanna hér á landi. Ekki fást upplýsingar um viðbrögð við þessari orðsendingu. Þennan sama dag, föstudag, sagði Davíð Oddsson utanríkisráðherra hins vegar að hann teldi ólíklegt að framsals yrði krafist og þó svo hún kæmi efaðist hann um að Íslendingum yrði skylt að verða við henni. Sjálfur hefur Fischer nú ákveðið að falla frá málsókn á hendur japönskum stjórnvöldum, en það ætlar hann þó ekki að gera fyrr en tryggt er að þau heimili honum að fara til Íslands. Þetta þarf að komast á hreint áður en Sæmundur Pálsson heldur utan til að fylgja Fischer til landsins. Jafnvel var búist við því að þessi mál kæmust á hreint í dag og var Sæmundur tilbúinn að fara, ásamt fleirum, í einkaþotu til Japans í hádeginu í dag. Síðar kom í ljós að ekkert myndi gerast strax svo ferðin verður farin í fyrsta lagi á morgun, annað hvort með einkavél eða áætlunarflugi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×