Handbolti

Seinni bylgjan: „Enginn sem spilar þessa stöðu jafn vel og Steinunn í íslenskum handbolta“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Besti leikmaður Olís-deildar kvenna, Steinunn Björnsdóttir.
Besti leikmaður Olís-deildar kvenna, Steinunn Björnsdóttir. vísir/daníel

Steinunn Björnsdóttir sópaði til sín verðlaunum á lokahófi Seinni bylgjunnar. Hún var valin besti leikmaður Olís-deildar kvenna, besti varnarmaðurinn og var í liði ársins. Þar voru tveir aðrir Framarar; Karen Knútsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir. Þá var Stefán Arnarson valinn besti þjálfarinn en hann gerði Fram að deildar- og bikarmeisturum.

Steinunn og Stefán mættu í spjall til Henrys Birgis Gunnarssonar í uppgjörsþætti Seinni bylgjunnar í gær. Þar sló Stefán Steinunni gullhamra.

„Ég talaði um að sumir leikmenn í kvennadeildinni væru jafn góðir og karlaleikmenn. Ef þú horfir á báðar deildirnar er enginn sem spilar þessa stöðu jafn vel og hún í íslenskum handbolta,“ sagði Stefán.

Hann segir að Steinunn sé mjög metnaðarfull og gefi aldrei neitt eftir. „Hún gefur sig alltaf hundrað prósent í verkefnið. Hún er mjög hörð á sjálfa sig og ef hún gerir mistök vill hún bæta fyrir þau. Hún er frábær varnar- og línumaður, fyrst fram og fyrst aftur. Svo er hún yfirleitt brosandi.“

Sé ekki ástæðu til að fara eitthvað annað

Steinunn hefur allan sinn feril leikið með Fram. Hún segist efast um að hún fari út í atvinnumennsku.

„Mér líður vel hér, er í flottri vinnu og með fjölskyldu. Það hafa komið tækifæri til að fara út en ekkert mörg. En ég er Framari, bý við hliðina á Fram-heimilinu og sé ekki ástæðu til að fara eitthvað annað,“ sagði Steinunn.

„Ég tek bara eitt ár í einu. Maður útilokar ekki að fara út en ég held að það sé fjarlægur draumur.“

Klippa: Seinni bylgjan - Steinunn hlaðin verðlaunum

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×