Sport

Mourinho vill ekki þjálfa England

Jose Mourinho, stjóri Chelsea, tjáði sig í gær um Sven Göran Eriksson, þjálfara enska landsliðsins, og vandræðin sem hann er búinn að koma sér í vegna meint ástarsambands við ritara enska knattspyrnusambandsins. Mourinho er á því að landsliðþjálfari eigi ávallt að vera sömu þjóðar og landsliðið sjálft. "Að þjálfa landslið kemur miklu meira frá hjartanu. Besti þjálfarinn fyrir Portúgal er portúgalskur þjálfari og besti þjálfarinn fyrir Frakka er einhver franskur," sagði Mourinho. Það hefur margsannað sig að fáir stjórar í veröldinni eru jafn hreinskilnir þegar kemur að tilsvörum eins og Mourinho. Á því var engin undantekning þegar hann var spurður um hvort hann gæti hugsað sér að gerast landsliðsþjálfari einn daginn. "Já, en ekki næstu 20 árin. Þegar ég verð sextugur langar mig að stýra Portúgal. Í því felst lítil vinna, þú getur sofið til hádegis alla daga og kíkt á leiki um helgar. Á tveggja mánaða fresti spilar liðið æfingaleiki og á tveggja ára fresti er stórmót," segir Mourinho og er ekkert að skafa utan af því. En þótt hann hafi samúð með Eriksson segist Mourinho aldrei vilja taka við Englandi. "Að vera þjálfari Portúgals er besta starf í heimi, en að vera þjálfari Englands? Ó, nei."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×