Innlent

Byggt í Úlfarsárdal fyrir 3,7 milljarða

Um síðustu áramót voru 352 íbúar með lögheimili í Úlfarsárdal.
Um síðustu áramót voru 352 íbúar með lögheimili í Úlfarsárdal. Fréttablaðið/Vilhelm
Algjör stefnubreyting verður í uppbyggingu Úlfarsárdals. Í stað 18.000 manna byggðar er gert ráð fyrir 2.500 til 3.000 manna byggð. Um áramótin voru 352 með lögheimili í Úlfarsárdal. Reykjavíkurborg mun setja 3.650 milljónir í uppbyggingu í Úlfarsárdal og Grafarholti á næstu fimm árum.

Önnur umræða um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fer fram í dag. Þar verða kynnt uppbyggingaráform í Úlfarsárdal, en á næstu fimm árum á að reisa nýjan samþættan leik- og grunnskóla, íþróttahús í fullri keppnisstærð og sundlaug. Á næsta ári verða 250 milljónir settar til verkefnisins og efnt til hönnunarsamkeppni.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, segir að Úlfarsárdalur sé það hverfi sem verst hafi farið út úr hruninu. Uppbyggingin, sem unnið hafi verið að í samvinnu við íbúa, auki vonandi bjartsýni á framtíð hverfisins.

„Þetta verður rólegra og friðsælla hverfi en lagt var upp með, en við veitum þó fullburða þjónustu með því að setja niður íþróttasvæði og sundlaug, auk samstæðs leik- og grunnskóla. Við vitum að margir íbúar hafa haft áhyggjur af því. Ég held að allir, þar með talið íbúarnir, hafi horfst í augu við það að það þurfti að trappa gömlu áformin niður.“

Framkvæmdirnar verða að hluta til fjármagnaðar með sölu lóða. Framlag úr borgarsjóði ræðst af eftirspurn af lóðunum.

„Við leynum því ekkert að þetta eru síðustu suðurhlíðarnar á höfuðborgarsvæðinu. Nú þegar við hugsum Úlfarsárdal og Grafarholt sem heild er komin svipuð hverfiseining og við þekkjum úr Árbæjarhverfi. Stóra breytingin er í raun að í nýju aðalskipulagi munum við ekki gera ráð fyrir þessari gríðarlega miklu uppbyggingu í Úlfarsárdal eins og áður var.“

Íþróttafélagið Fram og Reykjavíkurborg gerðu með sér samning um flutning félagsins í hverfið, en þá var gert ráð fyrir 18.000 íbúum. Dagur segir borgina vilja standa við þann samning, en vegna breyttra forsenda verði fundað með Fram um málið.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×