Innlent

Eyddu 600 milljónum á Þjóðhátíð

Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum
Frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum
Áætlað er að gestir Þjóðhátíðar í Vestmannaeyjum síðasta sumar hafi eytt sexhundruð milljónum króna í Eyjum, þá daga sem hátíðarhöldin stóðu yfir. Viðburðir á vegum ÍBV á hverju ári eru sagðir skila milljarði til bæjarins.

Íþróttabandalag Vestmanneyja fékk fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf til þess í sumar að vinna skýrslu um stærstu viðburði íþróttafélagsins, en ÍBV heldur á hverju ári Pæjumót, Shell-mót og svo auðvitað Þjóðhátíð.

Spurningar voru lagðar fyrir gesti viðburðanna og dagleg útgjöld meðal annars könnuð en spurningalistar voru lagðir fyrir gesti viðburðanna þegar þeir voru á leið frá Eyjum um borð í Herjólfi, en þáttakendur voru tæplega 600.

Það þarf kannski ekki að koma á óvart að mest voru útgjöldin hjá gestum Þjóðhátíðar en að meðaltali eyddi þjóðhátíðargesturinn 22.700 krónum, á Pæjumótinu var meðaleyðslan 9.700 krónur og á Shell-mótinu námu útgjöldin 7.400 krónum.

Samkvæmt rannsókninni eyddi því hver gestur Þjóðhátíðar um 60 þúsund krónum alls í Eyjum á meðan á hátíðinni stóð. Miðað við að tíu þúsund gestir hafi sótt hátíðina frá meginlandinu má því áætla að þeir hafi eytt heilum 600 milljónum króna í um Verslunarmannahelgina.

Þá vekur athygli að af þjóðhátíðargestum höfðu sextíu og níu prósent engin tengsl við Vestmannaeyjar, 26 prósent áttu vini eða ættingja í Eyjum og fimm prósent voru brottfluttir Eyjamenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×