Enski boltinn

David Beckham spilar aftur undir stjórn Sir Alex Ferguson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Beckham og Sir Alex Ferguson.
David Beckham og Sir Alex Ferguson. Vísir/Getty
Sir Alex Ferguson er ekki alveg hættur því hann mun stýra úrvalsliði Englands og Írlands í góðgerðaleik í næsta mánuði.

Það sem er ekki síður merkilegt er að fyrirliði liðsins er David Beckham sem mun því aftur spila undir stjórn Sir Alex.

Úrvalslið þeirra Sir Alex og Beckham mun mæta heimsliði frönsku goðsagnarinnar Zinedine Zidane en leikurinn fer fram á Old Trafford 14. nóvember næstkomandi.

Carlo Ancelotti, fyrrum þjálfari Chelsea, Real Madrid og AC Milan, mun stýra heimsliðinu og dómarinn verður enginn annar er Pierluigi Collina.

Allur ágóðinn af leiknum mun síðan renna til Unicef en það hafa örugglega margir áhuga á því að sjá þessa gömlu goðsagnir fótboltans eigast við í Leikhúsi draumanna.

Sir Alex Ferguson er orðinn 73 ára gamall en hann hætti sem knattspyrnustjóri Manchester United vorið 2013 eftir að liðið hafði unnið 38 titla á 26 árum hans í stjórastólnum.

David Beckham kom upp í aðallið Manchester United í tíð Sir Alex Ferguson og lék alls 394 leiki fyrir hann áður en Sir Alex Ferguson seldi hann til Real Madrid sumarið 2003.

Það var Beckham sjálfur sem hringdi í Sir Alex og bað hann um að stýra liðinu í þessum leik.

David Beckham og Sir Alex Ferguson unnu tólf titla saman hjá Manchester United þar á meðal enska meistaratitilinn sex sinnum, enska bikarinn tvisvar og Meistaradeildina einu sinni.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×