Innlent

Búið að slökkva eld í Austurstræti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður var í Austurstræti 16 aðfaranótt laugardags þegar kviknaði í inni á veitingastaðnum Apotek sem þar er til húsa. Fjórir slökkviliðsbílar og sex lögreglubílar komu á vettvang en slökkvistarf tók um klukkutíma og lauk rétt fyrir klukkan tvö.

Rífa þurfti niður vegg þar sem eldur komst á milli þilja og verður fylgst með húsinu fram eftir nóttu, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu.

Húsið var rýmt þegar eldurinn kom upp en þar er bæði hótel og veitingastaður. Eldurinn kom upp í eldhúsi veitingastaðarins og eru þar einhverjar skemmdir, en ekki liggur fyrir hversu miklar.

Engan sakaði en ekki voru margir inni á veitingastaðnum þegar eldurinn kom upp.

Vísir/Samúel Karl
Vísir/Samúel Karl
Vísir/Gísli Berg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×