Viðskipti innlent

Vilja tífalda framleiðslu metanóls í Svartsengi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Nýsköpunarfyrirtækið Carbon Recycling, sem hyggst reisa metanólverksmiðju fyrir kolaorkuver í Þýskalandi, er á sama tíma að ljúka stækkun eigin verksmiðju í Svartsengi fyrir 700 milljónir króna. Jafnframt er hafinn undirbúningur að enn stærri verksmiðju þar, sem myndi tífalda framleiðslugetuna.

Metanólverksmiðjan tók til starfa í Svartsengi árið 2012 en þar er koltvísýringur úr útblæstri orkuvers HS Orku notaður til að framleiða vistvænt eldsneyti í tilraunaskyni. En jafnframt því að selja tækniþekkinguna til nota í þýsku kolaorkuveri í Ruhr-héraðinu stendur Carbon Recycling nú í umfangsmiklum framkvæmdum við Grindavík.

Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar CRI, segir í viðtali í fréttum Stöðvar 2 að fjárfesting við stækkun verksmiðjunnar nemi um 6 milljónum dollara, eða á bilinu 600-700 milljónum íslenskra króna. Hópur verktaka undir stjórn Íslenskra aðalverktaka hafi unnið að stækkuninni undanfarna mánuði.

Stækkunin núna er hins vegar bara eitt skref. Forsvarsmenn Carbon Recycling sjá fram á þau verði mun stærri í framtíðinni.

Benedikt Stefánsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar CRI.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.
Benedikt segir að fyrirtækið hafa lagt línurnar að enn stærri verksmiðju, sem hugsanlega rísi við hlið þeirrar sem fyrir er í Svartsengi. Sú myndi framleiða tíu sinnum meira magn, og yrði að flatarmáli um þrefalt stærri en sú sem þar er fyrir. Þar yrði hægt að framleiða um 40 þúsund tonn af metanóli á ári, sem yrði fyrst og fremst hugsað til útflutnings, til að byrja með, en gæti hugsanlega í framtíðinni orðið undirstaða að íslensku eldsneyti fyrir bíla. 

Einnig séu á teikniborðinu möguleikar á tveimur verksmiðjum til viðbótar innanlands, sem myndu þá tengjast öðrum jarðvarmavirkjunum á Íslandi. 

Verkefni sem þessi kalla á flókna hönnun íslenskra sérfræðinga, að sögn Benedikts.

„Þetta er mjög flókið í framkvæmd. Við erum einstakt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða, í rauninni eina efnaverksmiðjan sem hefur verið sett upp á Íslandi af þessari stærð, og þessvegna mikið af þessari þekkingu sem við erum að skapa, - hún verður til um leið og við erum að vinna í þessu verkefni.“



Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×