Innlent

Verðbólgumarkmið næst ekki fyrr en í lok árs 2009, segir Glitnir

MYND/Heiða

Greiningardeild Glitnis býst ekki við að Seðlabankinn nái verðbólgumarkmiði sínu fyrr en undir lok árs 2009. Deildin gerir ráð fyrir að verðbólga lækki úr fjórum prósentum í 3,3 á milli júní og júlí og fari svo undir þrjú prósent í ágúst en hækki svo aftur fram á vor.

Fram kemur í endurskoðaðri verðbólguspá greiningardeildarinnar að verðbólga hafi verið 6,9 prósent í upphafi árs en að hún hafi lækkað undanfarna mánuði. Reiknar greiningardeildin með að hún haldi áfram að lækka næstu tvo mánuði.

Meðal þess sem leiðir til lækkunar vísitölu neysluverðs á milli mánaða að mati greiningardeildarinnar er nærri 10 prósent verðlækkun á fatnaði og skóm vegna útsala. Þá muni húsgögn og heimilisbúnaður lækka í verði í júlí auk tómstunda og menningar. Á móti þessum lækkunum kemur hækkun markaðsverð húsnæðis, en íbúðaverð er stærsti einstaki þáttur vísitölu neysluverðs. Enn fremur spáir greiningardeildin verðhækkunum hjá hótelum og veitingastöðum auk hækkunar á verði matvæla á milli mánaða.

Sem fyrr segir býst greiningardeildin við að verðbólgan lækki niður fyrir þrjú prósent í ágúst en fari svo aftur að hækka vegna lækkunar á gengi krónunnar. Samkvæmt spánni mun verðbólga vera 3,5 prósent yfir þetta ár en 4,8 prósent yfir næsta ár en hún fer hæst í fimm prósent næsta vetur.

Greining Glitnis býst svo við að gengið lækki fram á haustið 2008 en hækki þá og þá dragi aftur úr verðbólgu. 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans náist svo undir lok árs 2009.

Helsti óvissuþáttur verðbólguspár Glitnis er gengisþróunin. Lækki gengi krónunnar fyrr má reikna með að verðbólgukúfurinn verði fyrr á ferðinni og að sama skapi mun það fresta verðbólguskoti ef gengi krónu helst hátt fram eftir næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×