Innlent

FME hefur sambærileg úrræði og á þróuðustu mörkuðum Evrópu

Fjármálaeftirlitið hefur sambærileg úrræði til að framfylgja reglum á verðbréfamarkaði og tíðkast á þróuðust fjármálamörkuðum Evrópu. Þetta kemur fram í könnunum sem Samstarfsnefnd eftirlitsaðila á evrópskum verðbréfamörkuðum gerði á síðasta ári. Nefndin starfar í umboði Evrópusambandsins.

Fram kemur í frétt á vef Fjármálaeftirlitsins að kannanirnar hafi verið gerðar til að meta valdheimildir eftirlitsstofnana og athuga hvort þær væru fullnægjandi með tilliti til innherjatilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins. Valdheimildir eftirlitstofnana eru almennt sambærilegar og geta þrír af hverjum fjórum eftirlitsaðilum í Evrópu beitt stjórnvaldssektum.

Samkæmt könnun samstarfsnefndarinnar eru mörk sektarfjárhæða í Evrópu breytileg, en víða námu hámarkssektir frá 7,6 milljónum króna til 6,3 milljarða. Í Bretlandi er þó ekkert hámark á fjárhæð stjórnvaldssekta.

Fram kemur í frétt Fjármálaeftirlitsins að af könnuninni megi ráða að eftirlitið hafi sambærileg úrræði til að framfylgja reglum um verðbréfamarkaði og tíðkast á þróuðustu fjármálamörkuðum Evrópu. Slík úrræði geri Fjármálaeftirlitinu kleift að sinna starfi sínu á virkan hátt, stuðli að öflugu eftirliti sem brugðist geti skjótt við brotum og auki trúverðugleika íslenska fjármálamarkaðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×