Skoðun

Beint lýðræði í frumvarpi Stjórnlagaráðs

Eiríkur Bergmann skrifar
Grein Júlíusar Valdimarssonar, formanns Húmanistaflokksins, hér í blaðinu í gær veitir kærkomið tækifæri til að leiðrétta útbreiddan misskilning um þau ákvæði í frumvarpinu er varða beint lýðræði. Ranghermt er að málskotsréttur forseta skerðist og að samkvæmt því hefði ekki mátt kjósa um Icesave.

Hið rétta er að heimild forseta til að synja lögum staðfestingar helst óbreyttur. En að auki kemur réttur tíu prósenta kjósenda til að vísa lögum í þjóðaratkvæði að eigin frumkvæði. Aðeins í seinna tilvikinu eru undanskilin fjárlög, fjáraukalög, lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum og lög um skattamálefni og ríkisborgararétt. Með öðrum orðum skerðist málskotsréttur forseta alls ekki en við bætist álíka réttur tíu prósenta kjósenda með framangreindum takmörkunum. Því hefði forseta eftir sem áður verið heimilt að vísa Icesave í þjóðaratkvæði.

Þá fá tvö prósent kjósenda heimild til að leggja fram mál á Alþingi án skuldbindinga og tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi sem þinginu er skylt að afgreiða eða setja málið í þjóðaratkvæði ella. Því til viðbótar eru svo ýtarleg ákvæði um afar virkt persónukjör til Alþingis.

Með því að samþykkja frumvarp Stjórnlagaráðs í atkvæðagreiðslunni 20. október næstkomandi færist Ísland úr hópi þeirra ríkja á vesturlöndum sem viðhafa hvað minnst beint lýðræði yfir í þann þar sem það er hvað virkast.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.