Erlent

Tyrkir loka landamærum Sýrlands

Hópur uppreisnarmanna sestur að snæðingi eftir sólarlag í föstumánuðinum ramadan, sem er nýhafinn.
Hópur uppreisnarmanna sestur að snæðingi eftir sólarlag í föstumánuðinum ramadan, sem er nýhafinn. nordicphotos/AFP
Tyrkir hafa lokað landamærum Sýrlands, sem eru rúmlega 900 kílómetra löng. Flutningabifreiðar fá ekki að fara í gegn, en viðskipti um landamærin hafa numið nærri þremur milljörðum dala á ári, eða um 375 milljörðum króna.

Flóttafólki frá Sýrlandi verður þó áfram hleypt yfir landamærin til Tyrklands, en þar eru nú fyrir tugir þúsunda sýrlenskra flóttamanna. Einnig leyfa Tyrkir Sýrlendingum að ná sér í nauðsynjar yfir landamærin.

Að sögn frönsku fréttastofunnar AFP hafa 27 yfirmenn úr sýrlenska hernum flúið yfir landamærin til Tyrklands, og bættust tveir í hópinn í gær.

Tyrkir voru traustir bandamenn Sýrlands þangað til uppreisnin gegn Bashar al-Assad forseta hófst snemma á síðasta ári. Tyrkir hafa frá byrjun harðlega gagnrýnt harkaleg viðbrögð Assads forseta og stjórnar hans gagnvart uppreisnarmönnum og mótmælendum, sem kostað hafa nærri 20 þúsund manns lífið.

Á síðustu vikum hafa uppreisnarmenn náð valdi á æ fleiri stöðum við landamærin, þar sem þeir hafa komið sér upp bækistöðvum. Þessu hafa fylgt harðir bardagar uppreisnarmanna og Sýrlandshers við landamærin, en undanfarna daga hafa átökin færst meira yfir til Damaskus og Aleppo, tveggja stærstu borga Sýrlands.

Sýrlandsher virðist hafa náð að miklu leyti að bæla niður uppreisnina í Damaskus og beinir nú meginafli sínu gegn uppreisnarmönnum í Aleppo og hefur Sýrlandsher ítrekað gert loftárásir á borgina síðan á þriðjudag.

„Fólk hefur áhyggjur af því að verða fyrir sprengjum og er að flýja borgina,“ segir Mohammed Saeed, einn uppreisnarmanna í viðtali við fréttastofuna AP.

Í Damaskus ræddu hins vegar Babacar Gaye og Herve Ladsous, yfirmenn friðargæslustarfs Sameinuðu þjóðanna, við blaðamenn og reyndu að halda í bjartsýni.

„Ég tel að stjórnarerindrekar verði að vera bjartsýnir og það er ekkert grín,“ sagði Ladsous. „Við verðum að halda í vonina um að ferlið allt komist á skrið, að vítahring ofbeldis linni og að einhverjar pólitískar lausnir finnist, einkum þó að einhver pólitísk samræða geti hafist.“

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×