Innlent

„Ég er tilbúinn að mæta í réttarsal“

SB skrifar

Jón Ólafsson athafnamaður segist tilbúinn að standa fyrir máli sínu í réttarsal. Hann segir það vont hlutskipti að vera grunaður maður í 6 ár. Ákæra í skattsvikamálinu verður birt honum í dag.

„Ég fagna því að þetta mál sé loksins að fá dómsmeðferð," segir Jón Ólafsson sem var staddur á heimili sínu í London þegar Vísir náði tali af honum. Hann sagði að ákæra hefði ekki verið birt honum.

Helgi Magnús Gunnarsson, yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, staðfesti við Vísi að ákæra á hendur Jóni Ólafssyni væri tilbúin og yrði birt honum í dag.

Samkvæmt heimildum Vísis er Jón Ólafsson ákærður fyrir hundraða milljóna króna skattsvik í tengslum við rekstur Norðurljósa og Skífunnar.

„Þetta byrjaði nú með 3 milljarða skattsvikum... og hefur því stórlega rýrnað þau 6 ár sem rannsóknin hefur tekið," segir Jón.

Hann segir það vont hlutskipti að vera grunaður maður í svona langan tíma. Hæstiréttur gagnrýndi í dómi sínum í Baugsmálinu fyrir skömmu að rannsóknin hefði tekið þrjú og hálft ár. „Ef það var óhæft hvernig lítur mitt mál út?" segir Jón. „Ég er tilbúinn að mæta í réttarsal. Nú fæ ég tækifæri til að hreinsa mannorð mitt."

Skattsvikamálið verður þingfest þann 16. júlí í Héraðsdómi Reykjavíkur. Ásamt Jóni eru þeir Hreggviður Jónsson, Ragnar Birgisson og Símon Ásgeir Gunnarsson ákærðir - þeir tengjast allir rekstri Norðurljósa.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×